Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

SA segir samúðarverkfall ólöglegt

25.02.2020 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Samtök atvinnulífsins telja að boðun samúðarverkfalls starfsmanna í einkareknum skólum sé ólögmæt. Þau skora á Eflingu að stöðva boðaða atkvæðagreiðslu ella muni þau höfða mál fyrir Félagsdómi.

Atkvæðagreiðsla um verkfall hófst í dag og á laugardag kemur í ljós hvort starfsmenn í einkareknum skólum , aðallega í Reykjavík, fara í ótímabundið samúðarverkfall 9. mars til að styðja borgarstarfsmenn Eflingar sem eru í verkfalli. Í Speglinum í gær kom fram að ekki sé heimilt að fara í samúðarverkfall til að bæta eigin kjör, einungis til að styðja við kjarabaráttu þeirra sem eru í verkfalli.

Í samúðarverkfall til að bæta sín kjör

Í bréfi, sem SA sendi Eflingu í dag,  segir að óumdeilt sé að félagsmenn Eflingar sem starfa í einkareknum skólum hafi hagsmuni af niðurstöðu kjaradeilu Eflingar og borgarinnar. Þeir hafi um langt skeið notið sömu kjara og samið hafi verið um í samningum milli Eflingar og Reykjavíkurborgar.  Með samúðarverkfalli séu þeir orðnir beinir þátttakendur í verkfalli með það að markmiði að bæta eigin kjör. Yfirlýsingar forystumanna Eflingar í fjölmiðlum hafi í raun staðfest það.

Vilja að atkvæðagreiðslan verði stöðvuð

SA skorar því á Eflingu að stöðva atkvæðagreiðslu um verkfall. Komi til þess að samúðarverkfall verði boðað muni SA fyrir hönd Samtaka sjálfstæðra skóla höfða mál fyrir félagsdómi til að fá verkfallsboðuninni hnekkt.