RÚV sýnir áhuga á glæpaþáttum fyrrum ráðgjafa Samherja

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

RÚV sýnir áhuga á glæpaþáttum fyrrum ráðgjafa Samherja

25.02.2020 - 22:48

Höfundar

Jón Óttar Ólafsson, sem útgerðarfélagið Samherji sendi til Namibíu árið 2016 þegar það sagðist hafa orðið þess áskynja að ekki væri allt með felldu í rekstrinum þar, er einn handritshöfunda að glæpaþáttaröð sem RÚV hefur sýnt áhuga. Þeir nefnast Polaris og segja frá því hvernig íslenskir bankamenn hreinsa upp sparifé í Bretlandi fyrir rússneska olígarka og vafasama athafnamenn þegar eignir þeirra voru frystar í bankahruninu 2008.

 Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri, staðfestir að RÚV hafi sýnt þáttunum áhuga. „Við höfum kynnt okkur verkefnið og höfum sýnt því áhuga en ekkert er frágengið,“ segir Skarphéðinn í samtali við fréttastofu.

Greint er frá þáttunum á vef Variety í kvöld. Þar er sagan sögð byggja á sönnum atburðum sem áttu sér stað þegar íslensku bankarnir urðu gjaldþrota fyrir tólf árum.  Bankamennirnir flýja til Líbíu til að fela hið illa fengna fé fyrir yfirvöldum. Þegar einn úr hópi þeirra, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður efnahagsbrota, snýr aftur til Bretlands til að reyna breiða yfir glæpinn verður honum ljóst að yfirvöld hafa komist á snoðir um aðkomu hans.

Í frétt Variety kemur jafnframt fram að sænska dreifingarfyrirtækið Eccho Rights hafi tryggt sér dreifingaréttinn á alþjóðavísu en það er fyrirtækið Glassriver sem framleiðir þá. Hörður Rúnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er einnig meðal handritshöfunda auk þess sem verðlaunaleikstjórinn Baldvin Z og Andri Óttarsson verða þeim innan handar. 

Jón Óttar var rannsóknarlögreglumaður hjá sérstökum saksóknara. Hann og annar starfsmaður embættisins voru kærðir til ríkissaksóknara árið 2012 vegna brots á þagnarskyldu. Málið var fellt niður tveimur árum seinna. Jón Óttar fullyrti að stundaðar hefðu verið ólöglegar hlustanir hjá sérstökum saksóknara, meðal annars að hlustað hefði verið á samtöl sakborninga og lögmanna. Sérstakur saksóknari hafnaði þeim ásökunum.

Það vakti síðan nokkra athygli þegar greint var frá því í bókinni Ekkert að fela, á slóð Samherja í Afríku, að  Jón Óttar hefði verið sendur af Samherja til Namibíu. Í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér eftir umfjöllun Kveiks kom fram að eftir nokkurra mánaða vinnu Jóns Óttars hafi niðurstaðan orðið sú að segja Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstraranum í Samherjaskjölunum, upp störfum án tafar. 

Samkvæmt Samherjaskjölunum, sem birt voru á Wikileaks virtist Jón Óttar hafa tekið fullan þátt í störfum fyrir Samherja meðal annars í Namibíu.  Þá kom fram í bókinni að hann hefði gert sér grein fyrir að hann hefði verið að taka þátt í verkum sem ekki væru öll réttu megin línunnar.

Á vef Bjarts-Veraldar kemur fram að Jón Óttar sé doktor í afbrotafræðum frá Cambridge en hann hefur skrifað tvær skáldsögur - Ókyrrð og Hlustað.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Rannsóknarlögreglumaður Samherja í Namibíu