Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

RÚV sektað fyrir Palestínuborða Hatara

20.09.2019 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hefur ákveðið að sekta RÚV fyrir framgöngu Hatara í græna herberginu í lok Söngvakeppninnar í Ísrael í vor. Hljómsveitin dró upp borða í fánalitum Palestínu þegar sjónvarpsmyndavélum var beint að þeim en mjög fljótlega var skipt yfir á aðra þátttakendur. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að sektin nemi 5000 evrum, en það er lágmarkssekt.

RÚV kom á framfæri mótmælum við EBU um fyrirætlanir um sekt þar sem lýst var yfir óánægju með meðferð málsins og fyrirhugaða niðurstöðu. Í bréfi RÚV til EBU segir að það væri röng niðurstaða eða ranglát að sekta RÚV fyrir brot á reglum þegar RÚV hefði gert allar mögulegar ráðstafanir til að farið yrði að reglum keppninnar. RÚV sé þeirrar skoðunar að þær sjónvarpsstöðvar sem taka þátt í keppninni geti aldrei komið algjörlega í veg fyrir að listamenn á þeirra vegum segi eða geri eitthvað sem mögulega kunni að stangast á við reglur keppninnar.

Í yfirlýsingu RÚV kemur fram að RÚV sé eftir sem áður stolt af framlagi Íslands í keppninni í ár og telji að atriði Hatara hafi verið glæsilegt og vakið mikla athygli. Afgreiðsla EBU hafi ekki frekari eftirmála og RÚV ákveðið að taka þátt í keppninni á næsta ári, sem haldin verður í Rotterdam í Hollandi. Nýverið var opnað fyrir innsendingu á lögum í keppnina. 

Hér má lesa yfirlýsingu RÚV í heild. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV