
RÚV sektað fyrir Palestínuborða Hatara
RÚV kom á framfæri mótmælum við EBU um fyrirætlanir um sekt þar sem lýst var yfir óánægju með meðferð málsins og fyrirhugaða niðurstöðu. Í bréfi RÚV til EBU segir að það væri röng niðurstaða eða ranglát að sekta RÚV fyrir brot á reglum þegar RÚV hefði gert allar mögulegar ráðstafanir til að farið yrði að reglum keppninnar. RÚV sé þeirrar skoðunar að þær sjónvarpsstöðvar sem taka þátt í keppninni geti aldrei komið algjörlega í veg fyrir að listamenn á þeirra vegum segi eða geri eitthvað sem mögulega kunni að stangast á við reglur keppninnar.
Í yfirlýsingu RÚV kemur fram að RÚV sé eftir sem áður stolt af framlagi Íslands í keppninni í ár og telji að atriði Hatara hafi verið glæsilegt og vakið mikla athygli. Afgreiðsla EBU hafi ekki frekari eftirmála og RÚV ákveðið að taka þátt í keppninni á næsta ári, sem haldin verður í Rotterdam í Hollandi. Nýverið var opnað fyrir innsendingu á lögum í keppnina.