Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

RÚV mögulega sektað vegna Palestínufánans

31.08.2019 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
RÚV og EBU, samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, eiga nú í viðræðum um hugsanlega sektargreiðslu vegna Palestínufánans sem liðsmenn Hatara veifuðu á Eurovision-keppninni í Ísrael í sumar. Þetta staðfestir Rúnar Freyr Gíslason, verkefnisstjóri Söngvakeppninnar, í samtali við fréttastofu.

Hann segir að ef af sektinni verður yrði það ekki há fjárhæð og að það hafi aldrei komið til tals í þessum viðræðum að Íslandi yrði meinað að vera með í keppninni á næsta ári sem verður í Rotterdam í Hollandi. 

Atvikið vakti hörð viðbrögð í Ísrael og var kallað eftir því að Ísland yrði beitt hörðum viðurlögum þar sem þetta væri skýrt brot á reglum keppninnar. Atvikið hefur verið klippt út á DVD-útgáfunni af keppninni en bandarískir áhorfendur geta séð það á Netflix þar sem keppnin hefur verið birt í heild sinni.  

Skömmu eftir að liðsmenn Hatara drógu upp fánann kom öryggisvörður og hirti hann af þeim. Fánann höfðu þeir fengið í Ramallah og var honum smyglað yfir landamærin til Ísraels.  Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvari sveitarinnar, sagði í Kastljósi að hann hefði geymt fánann ofan í stígvélinu á meðan stigin voru kynnt.

Rúnar Freyr segir að undirbúningur fyrir næstu Söngvakeppni sé kominn vel á veg og að það styttist í að auglýst verði eftir lögum til að taka þátt.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV