Rúta lenti utan vegar í Skagafirði

10.01.2020 - 16:42
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Landsbjörg
Vindhviða feykti rútu með 22 farþega út af veginum í Skagafirði, nærri Varmahlíð, um þrjúleytið í dag. Fimmtán ungmenni voru um borð. Enginn slasaðist en björgunarsveitarmenn fluttu farþega í Varmahlíð, þar sem þeir bíða þess að veður lægi.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, var rútan skilin eftir utan vegar. 

Þakkar skjótum viðbrögðum bílstjórans að ekki fór verr

Í rútunni voru um fimmtán ungmenni sem voru á leið á íþróttamót á Akureyri. Að sögn þjálfara liðsins kom björgunarsveitin fljótt á vettvang og vel gekk að ferja mannskapinn í Varmahlíðarskóla. Þar halda þau nú fyrir en það ræðst eftir veðri og færð hvert framhaldið verður. Hann segir að veðrið í Varmahlíð sé skaplegt en þar sem rútan fór út af hafi verið vindhviður upp undir 29 metra á sekúndu. Hann þakkar skjót viðbrögð rútubílstjórans að ekki fór verr. Ekkert högg kom á bílinn þegar hann lenti utan vegar. Ungmennin séu vel á sig komin þrátt fyrir hrakfarirnar.

Búið er að loka Holtavörðuheiði vegna veðurs. Lokað er um Hellisheiði, Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Nesjavallaleið. Tugir ökumanna lentu í vandræðum í dag og festust í bílum sínum við Þrengsli og Hellisheiði. Björgunarsveitarmenn hafa aðstoðað ökumenn og hafa aðgerðir gengið vel, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV