Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rúta keyrði inn í snjóflóð á Fagradal

16.03.2020 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Rúta keyrði inn í snjóflóð á Fagradal fyrir austan á áttunda tímanum í morgun. Í henni var starfsfólk Alcoa á leið frá Egilsstöðum til vinnu í álverinu á Reyðarfirði. Vegurinn var opinn í morgun en er nú lokaður vegna snjóflóðsins.

Ari B Guðmundsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, segir að snjóflóðið féll ekki á rútuna, heldur var það þegar fallið og rútan keyrði á það. Hann er ekki sjálfur á staðnum en segir að rútan sé töluvert skemmd að framan.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fjölmiðlafulltrúi Alcoa, segir að engin meiðsl á fólki hafi orðið við atvikið. Rútan tekur 53 í sæti en einungis 23 voru í rútunni í samræmi við viðbúnað fyrirtækisins vegna COVID-19.

Björgunaraðilar frá Reyðarfirði ferjuðu starfsfólkið frá rútunni og til vinnu á Reyðarfirði. Búið er að losa rútuna en þar sem dalurinn er enn lokaður komst starfsfólk sem var á næturvakt ekki heim með rútunni. Dagmar segir að þeim hafi verið komið fyrir á Reyðarfirði.

„Þetta fór sem betur fer ekki illa vegna þess að rútan lendir ekki í snjóflóðinu þegar það fellur heldur bara keyrir hún á leifar af flóði á veginum,“ segir Dagmar.

Fréttin hefur verið uppfærð og farþegafjöldi rútunnar færður inn.