„Rússum líkar að vera miklir“

28.11.2017 - 21:15
Mynd: RÚV / RÚV
Það er ekki nema rétt rúmur áratugur frá því síðustu hermennirnir pökkuðu saman föggum sínum og yfirgáfu herstöðina á Miðnesheiði. Þar með yfirgaf Bandaríkjaher einhverja mikilvægustu herstöð kalda stríðsins sem stundum var líkt við flugmóðurskip á landi. Eftir stóðu yfirgefin mannvirkin og áratug síðar er ennþá frekar draugalegt þar.

Á Miðnesheiði var fylgst með ferðum rússneskra kafbáta sem sigldu um hafsvæðið umhverfis Ísland, hið svokallaða GIUK-hlið, frá Grænlandi til Íslands og yfir að Bretlandseyjum. Í dag minnir þetta meira á yfirgefna sviðsmynd fyrir kvikmynd. En það er meira um að vera en útlitið gefur til kynna.

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar í Keflavík.

Aukin umferð um svæðið

„Hér er starfsfólkið okkar að sinna þessu daglega loftrýmiseftirliti, þeir eru að auðkenna allar flugvélar sem koma inn í loftrýmið,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar í Keflavík. Og það eru ekki bara þessar borgaralegu flugvélar sem við sjáum á internetinu heldur allt saman. „Allt saman, hervélar og borgaralegar vélar. Og eru að tryggja að þær séu allar þær sem þær segjast vera. Ef ekki þá bregst bandalagið við því með einum eða öðrum hætti.“

Hér koma bæði orrustuþotur sem eru að sinna loftrýmisgæslu og svo koma kafbátaeftirlitsvélarnar hér mjög reglulega í eftirlit með hafsvæðunum í kringum Ísland. 

Jón segir að umfangið hafi aukist á undanförnum árum. „Það hefur verið sígandi í þessu síðastliðin þrjú ár,“ segir hann. En er einhver ein ástæða fyrir því? Jón segir það vera ástand heimsmálanna. „Það hefur bara breyst.“

Raunar er svo komið að NATO, með Bandaríkjaher í broddi fylkingar, telur nauðsynlegt að efla starfsemina á Íslandi á ný, því gamli óvinurinn sé kominn upp að Íslandsströndum á ný.

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Jim Townsend, fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Ísland tappinn í flöskunni

Jim Townsend, fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að þjóðirnar í NATO hafi orðið varar við aukna umferð Rússa um GIUK-svæðið.

„Undanfarin tvö ár hafa Natóþjóðirnar sem og þjóðirnar í heimshlutanum orðið vitni að auknum umsvifum hers Rússa um GIUK-hliðið. Það veldur áhyggjum og NATO hefur því gert sér ljóst að það þarf að hafa skýrari mynd af því sem um er að vera og að fylgjast þarf betur með en við höfum gert,“ segir hann.

Og hvernig passar Ísland inn í þá mynd?

„Ég hef ætíð séð Ísland fyrir mér sem tappann í flöskunni. Ísland er í miðju hliðinu. Og Ísland hefur ætíð mótast af landfræðilegri stöðu sinni. Lega lands ákvarðar örlög þess. Og á stað þar sem spenna gæti aukist hratt. En í ofanálag eru hér mikilvægar siglingaleiðir til margra þjóða og síðastliðna öld hafa Íslendingar verið í þeim sporum að ýmsar þjóðir, sem vilja ráða landinu, ásælast það og ráða þar með siglingaleiðunum.“

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Önnur staða nú en áður

Íslensk stjórnvöld eru meðvituð um málið. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir svæðið í raun vera komið á allt annan stað en áður. „Við erum að sjá hér fleiri kafbátaferðir, ef marka má fullyrðingar bandarískra flotaforingja, rússneskra kjarnorkukafbáta heldur en við sáum á dögum Kalda stríðsins. Og hér er um að ræða nýja kynslóð kafbáta. Og með langdrægar flaugar. Þannig að þetta GIUK-hlið, það er að segja svæðið á milli Grænlands, Íslands og Bretlands, er komið á allt annan stað en það hefur verið í mjög langan tíma,“ segir hann.

En hversu margir rússneskir kafbátar eru þá undan Íslandsströndum – og hvað eru þeir að gera? Því vill enginn svara – líkast til veit það enginn nema Rússar – og þess vegna þykir nú ástæða til að efla kafbátaeftirlit við Ísland. Wolfgang Ischinger er einn helsti öryggis- og alþjóðamálasérfræðingur Þýskalands.

„Eftir á að hyggja var það ekki skynsamleg ákvörðun að loka alveg aðstöðunni á Íslandi sem Bandaríkjaher og NATO höfðu,“ segir hann. „Pólitískt hefði verið skynsamlegra að hafa áfram lágmarksstarfsemi og viðhalda viðveru hersins. Þá hefði verið einfaldara að efla starfsemina ef pólitískar eða hernaðarlegar ástæður kölluðu á slíkt. Ég deili þessum áhyggjum af vanrækslunni.“

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Krasnodar er frekar nýlegur kafbátur sem tók þátt í æfingum í Eystrasaltinu.

Nýjar leiðir til að fela

Atburðir annars staðar í heiminum í ár settu skrekk í hershöfðingja Atlantshafsbandalagsins. Til að mynda atvik tengt kafbátnum Krasnodar. Það er frekar nýlegur kafbátur sem tók þátt í æfingum í Eystrasaltinu í maíbyrjun en lagði að því loknu af stað til bækisstöðvar sinnar við Svartahaf.

NATO hafði fylgst með ferðum Krasnodar þar sem leiðin lá um Miðjarðarhafið. En allt í einu dúkkaði hann upp undan ströndum Sýrlands og skaut flugskeytum þangað, öllum að óvörum, og hvarf svo. NATO beitti öllu til að finna Krasnodar en týndi honum aftur og aftur.

Báturinn er húðaður nýju efni sem dregur úr endurvarpi hljóðs, auk þess sem dísilvél bátsins er svo hljóðlát að innan Bandaríkjahers er vísað til hans sem svartholsins. Og innan tíðar bætist annar, stærri og hljóðlátari kafbátur við þegar kjarnorkuárásarbátar af gerðinni Yasen verða teknir í notkun. Djúpt neðansjávar er afskaplega lítið að sjá og því er það hljóðið sem segir til um ferðir kafbáta. Hljóðlátir kafbátar finnast illa. 

Forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins vita að þessir kafbátar hafa verið á ferð undan Íslandsströndum, líkast til oft án þess að nokkur hafi veitt því eftirtekt. Hverfandi líkur eru á að Rússar hafi nokkuð í huga með Ísland en í Eystrasaltinu láta þeir ófriðlega. Philip Breedlove, fyrrverandi yfirmaður hersveita NATO, sagðist í samtali við Kveik meðal annars óttast að Rússar gætu hindrað sjóflutninga um GIUK-hliðið ef til átaka kæmi í Eystrasaltinu – og þar með komið í veg fyrir flutning hergagna og herliðs frá Bandaríkjunum. 

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
59 P8-kafbátaleitarvélar eru í umferð.

Hátæknilegt og háleynilegt

Þá hafa rússnesku kafbátarnir verið á kreiki nærri mikilvægum neðansjávarköplum sem flytja ógrynni mikilvægra upplýsinga á hverjum degi, en enginn veit hvað kafbátarnir eru þarna að sýsla. Þessar áhyggjur eru ein meginástæða umfangsmikilla heræfinga umhverfis Ísland í haust.

Sameiginleg æfing Samtaka strandgæslustofnana var ein æfingin, loftrýmisgæsla Bandaríkjanna önnur. Og fáeinum vikum áður var ekki minna um að vera, þegar kafbátaleitaræfing NATO var með nokkuð skömmum fyrirvara flutt frá Noregi til Íslands. 

Og svo eru það P8-kafbátaleitarvélar sem voru teknar í notkun fyrir fjórum árum og einungis 59 er komnar í umferð. P8-kafbátaleitarvélar hafa verið allt að átta í einu í flughlaðinu hér í Keflavík. Okkur var boðið að fara með einni þeirra í kafbátaleit, að sjá hvað við finnu, en því miður var allt um borð svo hátæknilegt og háleynilegt að við máttum ekki taka myndavélarnar okkar með. 

Um borð situr áhöfnin við öflugan búnað; háskerpumyndavélar sem hægt er að beina hver sem er og svo er það þetta, hlerunarbaujur sem varpað er í hafið til að hlusta eftir kafbátunum. Þota á borð við þá sem notuð er í þessu eftirliti getur verið uppundir tíu tíma í loftinu og varpað tugum bauja – sem kosta frá hálfri upp í rúma milljón króna hver. Um borð sitja sérfræðingar og hlusta á hljóðrásina frá baujunum – allt frá braki í rækjum til söngs hvala – og stundum drunur í kafbáti. Að allt að átta af 59 þessara kafbátaleitarvéla séu reglulega á Íslandi segir sína sögu. 

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Wolfgang Ischinger, yfirmaður München Sicherheits Konferenz.

Pútín vill endurvekja hernaðarmáttinn

Frá því að Vladímír Pútín varð forseti Rússlands á ný hefur áhersla verið lögð á hernaðaruppbyggingu. Á Vesturlöndum er þetta víða túlkað sem hrein ógn og til marks um að Rússar vilji endurvekja gamla stórveldisdrauma Sovét-áranna.  

„Það er ekkert nýtt, að Pútín, eftir margra ára vanrækslu á útgjöldum til hermála á miðjum tíunda áratugnum, leggi mikið upp úr að efla og endurvekja hernaðarmátt Rússa. Það má sjá á öllum sviðum. Það má sjá á flotanum, á flughernum og hvernig rússneski flugherinn gengur fram í Sýrlandi, til dæmis,“ segir Ischinger.

Ischinger segir hættu á að bregðist NATO-ríkin of harkalega við geti það framkallað kalt stríð. Það beri að forðast og því ættu viðbrögðin að vera hófstillt. 

En hver er tilgangurinn með þessari miklu hernaðaruppbyggingu? Alexander Sergunin er prófessor við háskólann í Sankti Pétursborg og einn helsti sérfræðingur Rússa í hernaðarmálum á norðurslóðum. Hann segir að þetta sé frekar endurnýjun og uppfærsla en uppbygging. Hersveitir NATO séu eftir sem áður margfalt stærri en þær rússnesku.

„Já, Rússar eru aftur mættir á norðurskautssvæðið. Þeir reyna að hnykkja á því að við ráðum yfir hernaðarmætti. Að af táknrænum ástæðum sýna þeir herafla sinn til að ekki fari á milli mála að Rússland sé herveldi í fremstu röð. Að það sé stórveldi sem er mikilvægt fyrir þjóðmálaumræðuna. Rússum líkar að vera miklir. Ég held ekki að þetta séu pólitískar yfirlýsingar. Bara hluti af venjulegri starfsemi hersins,“ segir hann. 

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Jacob Børresen, fyrrverandi foringi í norska flotanum.

Reglulega ráðist á Rússa

Norðmenn hafa áhyggjur af þessu hernaðarbrölti, hafa um nokkurra ára skeið fylgst mjög náið með því og gripið til aðgerða svo þeir séu undir hið versta búnir. En Rússar mæta líka ákveðnum skilningi. 

Jacob Børresen, fyrrverandi foringi í norska flotanum, bendir til að mynda á að Rússland sé stærsta land Evrópu og stærsta land heims í ferkílómetrum talið.

„Og landamæri þeirra eru afar löng og undirlögð átökum á Kákasus-svæðinu og á landamærunum að Kína. Reynsla Rússa í fimm hundruð ár er að á þá hefur verið ráðist úr vestri einu sinni á hverjum hundrað árum,“ segir hann.  

„Þeir sjá að NATO hefur fært út kvíarnar í nágrenni við þá; að það er komið þangað sem þeir, samkvæmt hefðinni, telja hlutlaust svæði gegn frekari árásum úr vestri. Þeir eru því mjög óöruggir og telja sig umkringda. Telja sig berskjaldaða og standa höllum fæti. Sé litið til endurnýjunar og enduruppbyggingar rússneska heraflans með tilliti til stærðar landsins og átakanna sem þeir eiga í, þá er það ekki úr hófi.“ 

Skýrsla rannsóknarstofnunarinnar Center for a New American Security.
 Mynd: RÚV
Fjallað hefur verið um GIUK-hliðið í skýrslum nýverið.

Hagtölurnar segja söguna

Uppbygging undanfarinna ára, meðal annars fjárfesting í nýjum kafbátum, hefur kostað dágóðan skilding. Rannsóknarstofnunin International Institute for Strategic Studies hefur reiknað út að frá 2008-2013 hafi útgjöld til hermála hækkað um nærri þriðjung.

Á milli 2014 og 2015 hækkuðu útgjöldin um þriðjung til viðbótar – en eru samt rétt um einn sjöundi hluti hernaðarútgjalda Bandaríkjanna. Í ár stóðu útgjöldin í stað enda efnahagsástandið erfitt, og vandséð að rússnesk yfirvöld geti haldið áfram á þessari braut. 

Ischinger segir að það verði að líta á hagtölurnar. „Þjóðarframleiðsla Rússa er vissulega meiri en Íslendinga. En hún er minni, og fæstir vita það, minni en þjóðarframleiðsla Ítalíu,“ segir hann og heldur áfram:

„Meira að segja umtalsvert minni. Hún er aðeins meiri en þjóðarframleiðsla Spánar. Það er óhugsandi, ef ekki koma til einhver efnahagsleg undur, að ríki með minni þjóðarframleiðslu en Ítalir geti þanið sig út með þessum hætti og látið eins og hernaðarlegt stórveldi. Ég held að það gangi ekki til lengdar.“

En Rússar vilja að allir viti af uppbyggingunni og vopnabúi hersins. Í september héldu þeir heræfingu, nánast hersýningu. Zapad hét æfingin, eða Vestrið. Rússar sögðu að þrettán þúsund hermenn hefðu tekið þátt í hefðbundnum og reglubundnum æfingum í Hvíta Rússlandi – nálægt landamærunum að Póllandi, Litáen og Lettlandi.

Vestrænir eftirlitsmenn fengu ekki að fylgjast með, þrátt fyrir samninga þar að lútandi, en mat vestrænna hernaðarsérfræðinga var að hermennirnir hefðu verið nær 100 þúsund, sem þýddi að þetta hefðu verið stærstu heræfingar Rússa frá lokum kalda stríðsins.  

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
NATO fylgist vel með öllu sem á sér stað á svæðinu.

Hættan ekki verið meiri í áratugi

Ef maður les um síðustu endurskoðun á hernaðaráætlunum Rússa og í siglingamálum verður þar fyrir herskátt orðalag þar sem Vestrið og þá einkum NATO eru talin bráðari ógn en fyrir aðeins fimm árum.

Sergunin segist búast við því að það séu að einhverju leyti áhrif af Úkraínudeilunni. „Svo að nýja framsetningin á hernaðarstefnunni er kannski herskárri en áður. En sé litið á innihaldið, ekki framsetninguna, er það mikið til það sama og áður. Ekki miklar breytingar,“ segir hann.

„Fyrri stefna var bjartsýnni í því að Vesturlönd, Natóþjóðirnar, voru ekki taldar bráð ógn eða hætta fyrir Rússland. En nú, eftir deilurnar um Krímskaga, þegar orðaskak beggja deiluaðila varð æ harðara. Og sé samskonar efni frá öðrum þjóðum skoðað er það sama á ferðinni þar,“ segir Sergunin. 

Því verður ekki neitað að þíðan í samskiptum gömlu kaldastríðsstórveldanna er horfin. Hún hefur vikið fyrir tortryggni, ekki síst vegna innrásar Rússa í Úkraínu, lymskulegum afskiptum og áhrifum þeirra á kosningar, meðal annars í Bandaríkjunum og fleira mætti telja til. 

Ischinger telur hættuna mikla. „Ég ítreka að traustið er ekkert og það veldur miklum áhyggjum af því að einhver gæti ýtt á rangan hnapp sem hefði svo óviðráðanlegar afleiðingar. Ég er þeirrar skoðunar að hættan í heiminum sé nú meiri en nokkru sinni frá falli Sovétríkjanna; sem sagt undanfarin tuttugu og fimm ár,“ segir hann.  

Russian President Vladimir Putin meets with heads of major foreign companies at the St. Petersburg International Economic Forum in St. Petersburg, Russia, Friday, June 2, 2017. (Sergei Savostyanov/TASS News Agency Pool Photo via AP)
 Mynd: AP Images
Pútín Rússlandsforseti.

Þolinmæði Pútíns á þrotum

En hvernig gat þetta gerst? Hverju er um að kenna? Hvernig getur verið, að þrjátíu árum eftir lok kalda stríðsins sé orðið hrollkalt á ný? Prófessorinn Sergunin vísar til kenninga stjórnmálafræðinnar, svokallaða „stöðu-kenningu“,  þar sem leitast er við að útskýra hvers vegna sum ríki haga sér í bága við eigin hagsmuni, oft á ófyrirsjáanlegan hátt. 

„Samkvæmt þessari kenningu gildir fyrir sumar þjóðir, þar á meðal Rússa, að staða og viðurkenning frá öðrum ríkjum er mun mikilvægari en hagnýtir hagsmunir. Ef við tökum Úkraínudeiluna sem dæmi, þá frá hlutlausu sjónarhorni, voru Rússar í mun verri stöðu en áður. Refsiaðgerðir og NATO teygði sig nær landamærunum í vestri,“ segir hann.  

En að sama skapi telur Sergúnin að Vesturlönd hafi ekki hlustað nægilega vel á Vladímír Pútín og viðvaranir hans um rauðar línur sem ekki mætti fara yfir. Að lokum hafi þolinmæði Pútíns verið á þrotum og hann brugðist við með órökréttum hætti – í takt við kenninguna. Wolfgang Ischinger er sammála því að Vesturlönd hafi ekki lesið stöðuna rétt og ekki skilið strategískan hugsanahátt Rússa. 

„Öryggi Rússlands, forsenda algjörs öryggis Rússlands, er að grannþjóðir okkar búi ekki við fullkomið öryggi. Forsenda fullkomins öryggis fyrir Rússland er að grannþjóðirnar búi við tilfallandi öryggi. Að þær verði að laga sig að okkur. Og því eru það hortugheit í Úkraínumönnum að vilja ganga í NATO af því að það fer ekki saman við hugmyndir okkar um öryggi. Ef við værum Rússar gætum við skilið þennan hugsunarhátt þegar saga Rússa á 20. öldinni er höfð í huga. Maður skilur að Rússar vilji hafa öryggisbelti umhverfis sig; ríki sem eru eins konar stuðpúði milli þeirra og vestursins. Við höfum líklega ekki tekið nógu mikið tillit til þess. Hve mikill ótti þeirra er.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Leiðtogafundur Reagan og Gorbachov í Höfða í Reykjavík.

Enginn fylgdi fordæmi Rússa

Rússum finnst þeir hafa verið niðurlægðir allt frá lokum kalda stríðsins og lærdómur þeirra af afvopnunartilburðum Mikhails Gorbachovs, sem náði ákveðnu hámarki á leiðtogafundinum í Höfða, er hrollvekjandi. 

„Þegar Gorbasjov hrinti þessu öllu af stað; að hernaðarmáttur væri ekki lengur mikilvægur, að við ættum að afvopnast og vera öðrum fordæmi. En enginn fylgdi fordæmi Rússlands, þetta var nánast einhliða, og þess vegna vill Pútín endurvekja hergagnaiðnaðinn, efla aftur vegsemd hersins og þess háttar og vill að aðrar þjóðir virði og meti þjóð hans,“ segir Sergunin.

Staðan er því þessi: Rússar byggja herinn sinn hratt upp, líta á NATO sem ógn, finnst að sér þrengt, og NATO veit ekki hvað þeir sýsla í kringum Ísland því innviðir til eftirlits eru ekki lengur til staðar. Hvað er rétt að gera í þessari stöðu?

Ísland í kunnuglegri stöðu

Townsend, fyrrverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir Ísland í kunnuglegri stöðu. „Svo að Ísland er aftur í stöðu tappans í flöskunni og aðrar þjóðir vilja á einhvern hátt tengja sig við það. Svo að NATO hefur því talsverðar áhyggjur af Íslandi og vill hjálpa Íslendingum,“ segir hann. 

Ischinger segir forsendu öryggis að NATO hafi yfirráð á Norður-Atlantshafi. 

„Hvað þarf að gera til að tryggja að Norður-Atlantshafið verði áfram hafsvæði samvinnu og friðar? Að ekki verði átök út af því? Forsendan er að Norður-Atlantshafið verið áfram undir yfirráðum NATO, ef ég má orða það þannig. Og að við gefum engum tilefni til – og þar með talið Rússum – að ætla að þar sé framtíðarleikvöllur þeirra. Ég tel það hyggilegt og nauðsynlegt fyrir Natóþjóðirnar að halda vöku sinni og viðhalda trúverðugum fælingarmætti; sýna eindrægan vilja og getu til að annast öryggishagsmuni sína,“ segir hann.

Børresen telur að sama skapi eðlilegt að NATO ríkin séu á varðbergi. 

„Þetta er eins og tveir húseigendur. Þeir vita að nauðsynlega forsenda fyrir farsælum samskiptum er traust og góð girðing. Að koma í veg fyrir allan misskilning um lóðarmörkin. Af hverju slær hann blettinn minn? Heldur hann sig eiga hann? Betra er að girðingin sé traust. Og það er hlutverk herafla okkar. Hann er þessi girðing,“ segir hann.

„Það sem ég hef áhyggjur af núna er að við höfum sofið aðeins á verðinum og nú þegar spennan vex milli Rússlands og Vesturlanda stígum við aftur fram og gerum það sem þarf en með því bætir í spennuna, sem er óþarfi, hefðum við verið allan tímann til staðar. Svo það skynsama fyrir NATO er að vera ætíð til staðar.“

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Af fundi framkvæmdastjóra NATO, Jens Stoltenberg.

Og sú virðist ætla að verða raunin. Á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna fyrr í þessum mánuði var ákveðið að koma á ný á fót herstjórnarstöð, til þess að tryggja mikilvægar siglingaleiðir um Norður-Atlantshafið, eins og það var orðað.

„Í dag sættumst við á drög að skipuriti fyrir NATO sem verður grundvöllur fyrir áframhaldandi vinnu. Ég vil nefna nokkur lykilatriði. Stjórn á Atlantshafi, að tryggja að siglingaleiðir milli Evrópu og Norður-Ameríku verði greiðar. Þetta er undirstöðuatriði fyrir bandalagið,“ sagði Stoltenberg. 

Ekki ástæða til að óttast

Nú tala forkólfar NATO fyrir því að það þurfi að efla viðbúnað hér, meðal annars kafbátaeftirlit. Eru íslensk stjórnvöld alveg opin fyrir því að endurræsa Keflavíkurstöðina? Guðlaugur Þór segir alls ekki um að ræða nein sambærileg umsvif eins og voru hér þegar herinn var með fasta viðveru.

„Þau umsvif voru miklu meiri. En hins vegar hefur eftirlitsflugi fjölgað. Þau voru um 77 á síðasta ári en á þeim tíma sem við tökum þetta viðtal eru þau búin að vera 120. En það er til komið út af auknum umsvifum Rússa hér í kring, á Norður-Atlantshafinu. En það er alls ekki neitt í líkingu við það sem við sáum hér áður fyrr,“ segir hann.

Guðlaugur telur ekki ástæðu til að almenningur finni til hræðslu vegna stöðunnar eins og hún birtist hér. 

„Sem betur fer er það nú þannig að heimur batnandi fer. Og við höfum sjaldan eða aldrei haft það jafnfriðvænlegt í heiminum þrátt fyrir að við fáum að vita um allt það eða flest það sem gerist á hernaðarsviðinu víðsvegar um heiminn. Þannig að það er enginn ástæða til þess að vera með neinn ótta út af því. En hins vegar skiptir máli að við, eins og við höfum gert um áratuga skeið, að við tökum þátt í varnarsamstarfi af ástæðu. Vegna þess að við erum að huga að öryggi íbúa Íslands. Og það er mjög mikilvægt að gera það áfram.“

Umfjöllun Kveiks um GUIK, umferð rússneskra kjarnorkukafbáta.
 Mynd: RÚV
Fylgst er með allri umferð umhverfis Ísland.

Á von á hófstilltum viðbrögðum

Sergunin telur að viðbrögð Rússa við auknum umsvifum NATO og Bandaríkjahers á Íslandi verði frekar hófstillt. 

„Og þá á ég við að það verður á vissan hátt afturhvarf til fyrri tíma. Svo að það er bara... Ísland verður aftur skotmark fyrir rússneskar eldflaugar og rússneska sjóherinn. Það er dálítið dapurlegt því enginn vill kynda undir ófriði og átökum,“ segir hann.

Það er enginn að tala um að hundruð eða þúsundir hermanna flytji aftur hingað á heiðina, eins og var í gamla daga. Breytingin felst í veru kafbátarleitarvéla og breyttri aðstöðu, eins og að lagfæra þetta flugskýli og setja upp þvottastöð til að spúla salt af kafbátarleitavélunum.

Hver næstu skref verða er svo alls óljóst. NATO ætlar að tryggja yfirráð sín yfir hafsvæðinu umhverfis Ísland og að fylgjast grannt með Rússum, sem líta á aukin umsvif NATO sem hreina ógnun. Það er ekki skollið á neitt kalt stríð en það þarf enginn að veljast í neinum vafa um að það hefur kólnað.

ingolfurbs's picture
Ingólfur Bjarni Sigfússon
Fréttastofa RÚV
adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi