Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rússneskt herskip stöðvaði Þerney

05.10.2016 - 21:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Rússneskt herskip stöðvaði í kvöld för frystitogarans Þerneyjar RE-1 og færði skipstjórann um borð til yfirheyrslu. Að sögn stýrimannsins á Þerney var skipið þá á leið á fiskimið norður af Kirkenes í Noregi og var rétt nýkomið inn í rússnesku lögsöguna.

Þar áttu skipverjar að taka um borð veiðieftirlitsmann samkvæmt tilmælum rússneskra stjórnvalda en skipið fór of snemma yfir línu sem markar leiðina á staðinn og var því stöðvað.

Viðbúnaður er á svæðinu vegna heræfinga sem þar standa yfir. Herskipið er í um 300-400 metra fjarlægð frá Þerney. Stýrimaðurinn kvaðst í samtalinu við fréttastofu vonast til að málið leystist fljótt.

sveinnhg's picture
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV