Rússar vísa ásökunum um falsfréttaherferð á bug

epa08225796 Police and medical workers stop vehicles on the highway road blockade for a health check in Guangzhou, China, 18 February 2020. The disease caused by the novel coronavirus (SARS-CoV-2) has been officially named Covid-19 by the World Health Organisation (WHO). The outbreak, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 1,874 people and infected over 73,000 others worldwide, mostly in China.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðuneyti Rússlands vísar á bug ásökunum bandarískra embættismanna um að rússneskir aðilar séu á bak við skipulagða falsfréttaherferð á samfélagsmiðlum, þar sem dreift er samsæriskenningum um Covid-19 kórónaveiruna og uppruna hennar.

Maria Zakharova, talskona ráðuneytisins, sagði í samtali við rússnesku TASS-fréttastofuna í gær, að fullyrðingar Bandaríkjamanna um þetta væru uppspuni frá rótum, sem settur væri fram af ráðnum hug og gegn betri vitund. Þessi orð Zakharovu eru fyrstu, opinberu viðbrögð rússneskra stjórnvalda við ásökunum Bandaríkjamanna.

Segja Rússa á bak við þúsundir falskra notenda

Embættismenn í bandaríska utanríkisráðuneytinu greindu frá því í vikunni að þúsundir gervinotenda á Twitter, Facebook og Instagram væru í því að dreifa staðlausum samsæriskenningum um að Bandaríkin væru á einhvern hátt á bak við COVID-19 faraldurinn, sem orðið hefur þúsundum að aldurtila í Kína og farinn er að teygja anga sína til annarra landa og álfa.

Færslurnar eru settar inn af gervinotendum í mörgum löndum á mörgum tungumálum. „Markmið Rússa er að sá fræjum sundrungar og tortryggni og grafa undan bandarískum stofnunum og bandalögum við vinaþjóðir, með grályndum og skaðlegum rógsherferðum," sagði Philip Reeker, sem fer með málefni Evrópu og Evrasíu í ráðuneytinu.

„Fjandsamlegir, rússneskir aðilar kjósa enn einu sinni að ógna öryggi almennings með því að dreifa falsfréttum um kórónaveiruna og dreifa þannig athyglinni frá viðbrögðum og aðgerðum heilbrigðisyfirvalda á heimsvísu," sagði Reeker. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi