Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Rússabann dragi ekki úr vexti útflutnings

19.08.2015 - 12:10
Seðlabanki Íslands
 Mynd: RÚV
Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir því að útflutningur haldi áfram að aukast óbreyttri aukningu í útflutningi þrátt fyrir innflutningsbann Rússa. Ferðaþjónustan mun bera þann vöxt uppi.

Samvæmt nýrri efnahagsspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir óbreyttum vexti útflutnings á árinu þrátt fyrir viðskiptabann Rússa. Líkt og í maí er gert ráð fyrir sjö prósenta vexti frá síðasta ári. Sá vöxtur er borinn uppi af þjónustuútflutningi, þjónustu sem erlendir aðilar kaupa af íslenskum fyrirtækjum. Ferðamönnum hefur fjölgað umfram það sem ráðgert var í spá bankans í maí.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að átta til tíu milljarðar króna tapist vegna viðskiptabanns Rússa þar sem hærra hlutfall uppsjávarafurða fari til bræðslu. Á móti komi lægri framleiðslukostnaður vegna bræðslu. Með öðrum orðum, kostnaður fyrirtækja við að vinna fiskinn minnkar en fjölmörg störf tapast í leiðinni.

Seðlabankinn bendir á að bannið hefði komið sér verr á síðasta ári þar sem efnahagsaðstæður í Rússlandi hafi versnað umtalsvert. Gengi rúblu gagnvart dollar hefur lækkað um tæplega helming frá sama tíma í fyrra.

Samkvæmt íslenska greiningaryrirtækinu Markó Partners hefur meðal makrílverð verið lægra það sem af er ári en á sama tíma í fyrra, eða sem nemur tæpum sjö prósentum. Meira var þó flutt af makríl frá Íslandi til Rússlands fyrstu sjö mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra, 11.500 tonn, en voru 10.000 tonn árið 2014. Þorri viðskipta með uppsjávarfisk hefur átt sér stað seinni hluta árs.

Almennt fluttu Rússar þó töluvert minna af makríl inn til landsins fyrstu sjö mánuði þessa árs, þó útflutningur íslenskra fyrirtækja hafi aukist lítillega. Rúmlega 20 þúsund tonn fyrstu sjö mánuði þessa árs miðað við rúmlega 40 þúsund tonn fyrstu sjö mánuði ársins 2014.

Þrátt fyrir vöxt í útflutningi gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að framlag útflutnings til hagvaxtar verði neikvætt þar sem innflutningur á vöru og þjónustu eykst um tólf og hálft prósent.