Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rúmur helmingur vill kjósa nú–VG með 20% fylgi

08.04.2016 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar vill að gengið verði til kosninga nú á vordögum eða 50,7%. Um fjórðungur (25,6%) vill kjósa í haust og tæpur fjórðungur (23,3%) 2017. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem gerð var 7. og 8. apríl 2016. Mun fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu vilja kosningar nú en annars staðar á landinu og yngra fólk vill fremur kjósa nú en það sem eldra er.

Eins er munur á afstöðu kynjanna til þess hvenær skuli kosið, meirihluti kvenna (56,2%) vill kjósa nú en 45% karla. Þá kemur fram að eftir því sem tekjur fólks eru hærri því líklegra er það til að vilja kjósa 2017.

Píratar stærstir – VG mælist með 20% fylgi

Í könnuninni er einnig spurt hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til kosninga nú. 34,2% segjast myndu kjósa Pírata og mælist hann því stærstur flokka. Þá segjast 21,3% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 20% Vinstri græn. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,4% fylgi, Samfylkingin 7,2% og Björt framtíð með 5,2% fylgi. 

Mun fleiri konur segjast myndu kjósa Vinstri græn en karlar, eða 29,5% kvenna á móti 11,6% karla. Þá er yngra fólk líklegra til að kjósa Pírata en það eldra en 63% fólks yngra en 25 ára segist ætla að kjósa Pírata en 23,6% fólks á aldrinum 45-54 ára.

Svarendur voru 2438 og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 7.-8.apríl 2016.

64% vilja afsögn Bjarna Benediktssonar

Uppfært kl. 18:52 – Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands birti könnun sem sýnir svipaðar niðurstöður. 51% kjósenda vill að kosið verði í maí eða júní 2016, 26% að kosið verði í haust og 23% næsta vor (2017). 80% svarenda eru hlynnt því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi af sér sem þingmaður, 64% svarenda eru hlynnt því að Bjarni Benediktsson segi af sér embætti fjármálaráðherra og 60% eru hlynnt því að Ólöf Nordal segi af sér embætti innanríkisráðherra. Nánar er fjallað um könnun Félagsvísindastofnunnar í annarri frétt á ruv.is