Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rúmlega 50 hafa leitað á slysadeild sökum hálkuslysa

29.11.2019 - 18:37
Innlent · færð · Hálka · hálkuslys · Landspítali · Slys · Veður
Mynd með færslu
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. Mynd: RÚV
Allt að 55 hafa leitað á slysadeild Landspítalans frá því í gærkvöld, eftir hálkuslys á höfuðborgarsvæðinu. Á milli klukkan átta í gærkvöldi, þegar þeir fyrstu byrjuðu að koma á slysadeildina, og klukkan átta í morgun leituðu fimmtán þangað. Síðan þá hafa tæplega fjörutíu bæst við, segir Jón Magnús Kristjáns­son, yfir­lækn­ir bráðalækn­inga á Land­spít­al­an­um. Áfram er varað við hálku víða um land.

Undir slíkum kringumstæðum verði biðtími á bráðamóttökunni ávallt lengri. Fólki er bent á að einnig er hægt að leita til heilsugæslustöðva og á Læknavaktina. Hann segir að á þessum verstu hálkudögum, sjái þau á slysadeildinni upp undir fimmtíu hálkuslys á einum degi. Sem betur fer séu þeir ekki margir á ári, eða um tveir til fimm.

Jón segir að fólk hafi slasast mismikið. Þó nokkuð sé um beinbrot, brot á úlnlið, öxl, jafnvel ökklabrot, og einhver höfuðhögg sem hefur þurft að rannsaka nánar. Margir sleppi þó með mar eða skrámur. Flestir hinna slösuðu séu fótgangandi vegfarendur, en eitthvað sé um meiðsl vegna umferðaróhappa. Þá sé þetta fólk á öllum aldri, þó síst krakkar.

Veðurstofan varar áfram við hálku víða á landinu öllu, einkum á suðvesturhorninu. Hiti verður við frostmark. Hálka eykst í nótt og má gera ráð fyrir að flughált verði í fyrramálið. Svo dregur úr seinni partinn þegar fer að hlýna. Full ástæða sé til að fara varlega.