Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Rukka aukið sendingargjald frá og með 3. júní

17.05.2019 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá og með 3. júní bætist sendingargjald við sendingar sem koma með Póstinum frá útlöndum. Sendingargjaldið verður 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu en 600 krónur fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu og er því ætlað að standa undir kostnaði við dreifingu.

Eftir breytinguna mun viðskiptavinur Póstsins sem pantar vörur frá útlöndum því greiða aðflutningsgjald sem greitt er til ríkisins, umsýslugjald sem Pósturinn innheimtir vegna tollskyldra sendinga og nú sendingargjald.

Í tilkynningu frá Póstinum segir að ástæða þess að nauðsynlegt þykir að grípa til þessara ráðstafana sé sú að verð samkvæmt alþjóðlegum samningum um póstsendingar hafi verið alltof lágt til að standa straum af kostnaði við dreifingu á Íslandi og hefur Íslandspóstur þurft að fjármagna þann mismun. Á síðasta ári hafi tapið vegna þessa numið alls um 920 milljónum króna. Íslandspóstur hafi ekki haft svigrúm til þess að standa undir þessum kostnaði og því hafi stjórnvöld staðið fyrir breytingu á lögum um póstþjónustu sem heimili innheimtu sendingargjalds til þess að fjármagna mismuninn. 

„Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ráðstöfun á eftir að valda einhverri óánægju og skiljum það vel. Ljóst er að innheimta sérstaks sendingargjalds er óheppileg leið til þess að mæta því að ekki hefur enn tekist að ná fram þeirri breytingu á alþjóðasamningum að burðargjald erlendra sendinga standi undir dreifingarkostnaði. Staðan er hins vegar sú að núgildandi fyrirkomulag getur ekki gengið lengur að óbreyttu og þetta er talin heppilegasta gegnsæja leiðin til þess að fá nægilega greitt fyrir erlendar sendingar, “ er haft eftir Helgu Sigríði Böðvarsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Íslandspósts, í tilkynningunni. 

Hún segir ljóst að fyrirtækið geti með engu móti staðið undir þessum kostnaði. Aftur á móti séu vonir bundnar við að hagstæðari samningar séu handan við hornið því póstfyrirtæki víðsvegar um heiminn standi í sömu sporum og unnið sé að því að ná fram breytingum á gildandi alþjóðasamningum. Takist það megi vænta þess að ekki þurfi að innheimta sérstakt sendingargjald.