Ruddi Öxnadalsheiði á eigin vegum til að komast í flug

09.01.2020 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Vegurinn um Öxnadalsheiði hefur verið lokaður vegna veðurs frá því snemma í gær. Vegagerðin gaf hins vegar leyfi fyrir því að einstaklingur færi með snjóblásara á eigin vegum í gegn í gær þrátt fyrir lokunina til þess að koma bíl yfir heiðina. Viðkomandi ætlaði sér að ná flugi.

Sigurður Jónsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem slík beiðni hefur borist. Um hafi verið að ræða einn jeppa sem fór með blásara á undan sér, en svo hafi nokkrir bílar náð að fljóta með. Vegurinn lokaðist jafn óðum á eftir bílalestinni þegar farið var í gegn. Uppátækið hafi ekki skemmt fyrir starfsmönnum Vegagerðarinnar sem sjá um mokstur á heiðinni.

Sigurður segir að bílarnir hafi verið fimm tíma á leiðinni yfir heiðina með blásarann á undan sér. 

Stefna á opnun þjóðvega í fyrramálið

Vegagerðin stefnir að því að opna þjóðveginn frá höfuðborgarsvæðinu, norður til Akureyrar og um Djúpveg til Ísafjarðar á morgun. Mokstur á að hefjast í nótt og mun opnun ráðast af umfangi hans, en stefnt er að því að leiðin gerði opnuð fyrir klukkan átta. Vegagerðin gerir ráð fyrir ágætum akstursskilyrðum fram eftir degi á föstudag.