Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Róttækar aðgerðir í Eyjum og Húnaþingi vestra

21.03.2020 - 22:35
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Grunur er um víðtækt kórónuveirusmit í Húnaþingi vestra og því hefur verið gripið til hertra sóttvarnaaðgerða. Aðeins einn má yfirgefa heimilið til að afla aðfanga. Hámarksfjöldi þeirra sem má koma saman eru fimm manns og taka þessar reglur gildi nú klukkan tíu. Sömu sögu er að segja í Vestmannaeyjum þar sem aðeins tíu manns mega koma saman og samkomur eru bannaðar, þar með talin einkasamkvæmi. Þá verður starfsemi, þar sem nálægð er mikil, bönnuð, svo sem á snyrtistofum og hárgreiðslustofum.

Á innan við viku hafa komið upp allmörg smit í Eyjum sem virðast eiga uppruna sinn úr ólíkum áttum, að sögn Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum. 40-50 prósent þeirra sem hafa greinst voru þegar komin í sóttkví. „Við þurfum að takmarka frekar samskipti á milli fólks, til að það séu þá ekki jafn stórir hópar sem eru útsettir þegar einhver fær einkenni og greinist með smit,“ sagði Páley í samtali við fréttastofu. 

Í gær var staðan þannig að ellefu voru smituð og um 280 í sóttkví. Nokkuð hefur bæst við í dag en nákvæmar upplýsingar liggja ekki fyrir á þessari stundu. Þó er ljóst að yfir tíu smit hafa verið greind í dag. Óhætt er að segja að þetta séu óvenjulegar aðstæður í Eyjum. Páley segir að fólk hafi brugðist við af mikilli yfirvegun. 

Allt gert sem hægt er að gera

„Allar aðgerðir sem við höfum þurft að fara í, þeim hefur verið vel tekið og fólk er fljótt að setja sig í þessi spor að skipta bara um gír og sinna öðrum verkefnum og breyta verklagi. Skólinn er búinn að vera í svolitlu uppnámi líka og menn fara þar bara á milli bekkja eins og ekkert sé og gera allt til þess að reyna að halda skólanum gangandi og mér finnst í raun fólk taka þessu ótrúlega vel,“ segir Páley.

„En ég ætla ekki að neita því það eru auðvitað eðlileg tilfinning að upplifa ákveðinn ótta þegar þú veist ekki hvað er í vændum og ekkert okkar getur fyllilega sagt það hvað er í vændum. En ég get alla vega fullyrt að það er allt gert sem við getum mögulega gert.“

 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV