Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rótin varar við því að börn verði áfram á Vogi

18.07.2019 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: MRE
Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda, varar við því að meðferð fyrir börn verði áfram á Vogi. Talskona félagsins, Kristín I. Pálsdóttir, kveðst vona að þetta sé skammtímalausn.

SÁÁ hefur um árabil séð um meðferð barna og unglinga með fíknivanda. Gagnrýnt hefur verið að á sjúkrahúsinu Vogi séu börn í samvistum við fullorðna, en í mars 2018 braut fullorðinn sjúklingur í tvígang á 16 ára stúlku. Skömmu síðar tilkynnti Vogur að hætt yrði að taka við ungmennum undir 18 ára í meðferð, en áfram yrði þessum viðkvæma hópi sinnt þar til nýtt úrræði væri í augsýn.

Í nóvember fól heilbrigðisráðherra Landspítala að sinna ungmennum yngri en 18 ára og gert var ráð fyrir að starfsemin gæti hafist nú í sumar. Í gær sagði heilbrigðisráðherra að ekki hefði tekist að færa þjónustuna á Landspítalann á tilsettum tíma, og Vogi hefðu því verið tryggðar 50 milljónir króna til að sinna henni áfram. Kristín segir þetta ótíðindi. „Okkur líst náttúrulega ekkert vel á það og vonum að þetta sé bara skammtímalausn, sem þarna er verið að tilkynna,“ segir hún.

Rótin telur að börn þurfi annars konar meðferð en fullorðnir fá á Vogi, enda sé fíknivandi þeirra oft afleiðing af áföllum og erfiðri reynslu. Þá óttast Kristín um öryggi barna á Vogi. „Það er samgangur við fullorðna þarna og allt of margar sögur og tilfelli þar sem við vitum af skaðlegum samskiptum unglinga og fullorðinna inni á Vogi. Þetta er alveg sérstaklega viðkvæmur hópur og því þarf að vanda til verka.“