„Rosalegir fordómar gagnvart þessu fólki“

Mynd: Davíð Kjartan Gestsson / RÚV

„Rosalegir fordómar gagnvart þessu fólki“

09.09.2019 - 16:13

Höfundar

Loftur Gunnarsson lést árið 2012 aðeins 32 ára gamall úr magasári. Aðstandendur hans segja að auðvelt hefði verið að meðhöndla meinið og fordómar gagnvart útigangsmönnum hafi verið rótgrónir í heilbrigðiskerfinu á þeim tíma.

Frosti Jón Runólfsson og Gunnar Hilmarsson standa á bak við minningarsjóð Lofts Gunnarssonar og halda í hans nafni styrktartónleika á Hard Rock á miðvikudagskvöldið en þá hefði Loftur orðið fertugur. Sjóðurinn hefur frá andláti Lofts styrkt hin ýmsu búsetuúrræði fyrir heimilislausa í Reykjavík. „Loftur var rosalega skemmtilegur, frumlegur og listrænn strákur sem leiddist út í áfengi og það heltók hann með tímanum. Þannig að hann endaði á götunni, og lést í kjölfarið,“ segir Frosti „Gringo“ í samtali við Morgunútvarpið en þeir Loftur höfðu verið vinir frá því á barnsaldri.

„Áður en hann lést var hann búinn að vera meira og minna á götunni í 7-8 ár,“ segir Gunnar Hilmarsson fyrrverand mágur Lofts. Fjölskyldan og vinir hafi reynt að bjarga honum og ágætistímar hafi komið inn á milli en alltaf hafi endað í sama farinu. „Hann sökk alltaf dýpra og endaniðurstaðan var köld gatan síðustu árin.“ Hann segir dauða Lofts sérstaklega sorglegan því auðveldlega hefði mátt bjarga honum. „Eitt af því sem Loftur fékk ekki var fordómalaus læknisaðstoð. Það hefur breyst, núna getur fólk sem er í hans stöðu fengið læknishjálp hjá Frú Ragnheiði. Hann deyr úr magasári sem hefði verið auðvelt að meðhöndla. Eitt af því sem einhver í hans stöðu þarf að gera er að fara reglulega til læknis og fá vottorð, en þar var enga þjónustu að fá.“

Lag sem tónlistarmaðurinn Pétur Ben samdi til heiðurs Lofti, en hann kemur fram á minningartónleikunum á miðvikudag.

Það hafi verið upphafið að því þeir fóru að kanna aðstæður fólks á götunni. Gunnar segir umræðuna í dag mun meiri og upplýstari, Reykjavíkurborg sé til að mynda með allt aðra stefnu í málefnum heimilislausra en var þá. „En við megum aldrei gleyma þeim sem minna mega sín. Það eru rosalegir fordómar gagnvart þessu fólki.“ Frosti sem bjó á Laugaveginum segir það oft hafa verið erfitt að mæta fyrrum besta vini sínum á gangi. „Þrútinn og bólginn af áfengi svo hann gat varla talað, en þarna bjó ég í fínni íbúð. Hann leit mjög illa út en kveinkaði sér samt aldrei.“

Litlu sigrarnir mikilvægir

Gunnar og Frosti segja um 300 manns vera á götunni. „En vandinn er miklu stærri, það eru mál sem við erum ekki að leysa, geðsjúkdómar og annað sem við veltum bara áfram,“ segir Gunnar og bætir við að hver einasta björgun sé mikils virði. „Það er fullt af litlum sigrum, við vitum það í þessum hóp. Fólk sem lyftir sér upp úr þessum aðstæðum ef það fær tækifæri og lifir aftur eðlilegu lífi.“ Þá nefnir hann jafnfram eins og Jón Gnarr í pistli í síðustu viku að Reykjavíkurborg sé með ýmis úrræði meðan nágrannasveitarfélögin dragi lappirnar.

Frosti segir að inn á milli hafi skinið í þann góða mann sem Loftur Gunnarsson var og það hafi verið grunnt á honum. „Eitt skipti sem hann var edrú stundaði hann það að hirða gömul jólatré af götunni og skera úr þeim skartgripi, gaf mér hauskúpuhálsmen.“ Hann segir Loft hafa verið vinamargan og fólk sem var á götunni á þessum tíma muni enn þá eftir honum. „Það hópaðist fólk í kringum hann, það var ára yfir honum. Þess vegna er þetta svo sorglegt, ég er alveg viss um að hann hefði tekið sig á, hann var það klár.“ Hann og Loftur voru vinir frá barnæsku. „Ég var hins vegar bara svo drukkinn sjálfur oft að ég var ekki að sinna honum eins vel og ég hefði átt að gera sem vinur,“ segir Frosti sem hefur nú verið edrú í rúmt ár.

Ástandið betra núna

Gunnar segir mikið hafa breyst frá því Loftur var á götunni og eina úrræðið hafi verið gistiskýlið á Spítalastíg sem hafi verið í slæmu ásigkomulagi og mjög fá svefnpláss. „Þetta er mikið betra í dag, áður þurfti að vísa svo mörgum frá og þá var það bara gatan. Minningarsjóður Lofts hefur styrkt gistiskýlið á Skúlagötu og Konukot, auk úrræða eins og smærri íbúðir á vegum Reykjavíkurborgar. Svo fyrir veturinn kaupum við alltaf hlý föt, skó mat, og annað. Síðasta vor endurnýjuðum við allar sængur og kodda í gistiskýlinu,“ segir Gunnar að lokum.

Á miðvikudaginn hefði Loftur orðið fertugur og þá verður blásið til styrktartónleika á Hard Rock þar sem allur ágóðinn rennur til að styrkja búsetuúrræði fyrir heimilislausa. Tónlistarmennirnir KK, Sycamore Tree, Krummi, Teitur Magnússon, Pétur Ben, Ragnheiður Gröndal og Elín Ey munu gefa vinnu sína. Þá verður á sunnudaginn sýnd heimildarmynd í Bíó Paradís um Loft sem Frosti leikstýrði þar sem ágóðinn rennur einnig í minningarsjóðinn. Sigmar Guðmundsson og Hulda Geirsdóttir ræddur við Frosta Jón Runólfsson og Gunnar Hilmarsson í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Fannst hún alveg frábær en samt pínu léleg“

Mannlíf

Afhentu Gistiskýlinu 20 ný rúm