Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Rómantíkin er dauð á Skógafossi“

07.07.2016 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Gunnar Grímsson deildi í gær mynd innan Facebook-hópsins Bakland Ferðaþjónustunnar af nokkrum lásum sem hann segist hafa klippt af útsýnispallinum við Skógafoss. Þetta eru svokallaðir ástarlásar sem sjá má víðs vegar um heim.

„Rómantíkin er dauð á Skógafossi! Þessir ástarlásar voru klipptir af útsýnispallinum fyrir ofan fossinn rétt í þessu. Að vísu eru þrír eðallásar eftir sem ég náði ekki að klippa af... vonum að samband turtildúfnanna sé jafn sterkbyggt og lásarnir þeirra,“ skrifar Gunnar á Facebook.

Þessi hreinsun Gunnars á útsýnispallinum fer þó misvel í fólk. Sumir vilja ekki sjá ástarlása á Íslandi meðan einn spyr hvers vegna lásarnir megi ekki vera í friði. Gunnar hefur nú fjarlægt færsluna af Facebook og neitaði að tjá sig um þennan gjörning þegar fréttastofa náði tali af honum í dag.

Árný Lára Karvelsdóttir, kynningarfulltrúi Rangárþings eystra sem sér um viðhald og umhirðu við Skógafoss, segist ekki hafa haft fregnir af því að til stæði að fjarlægja lásana. „Hingað til hefur þetta ekki verið eitthvað sem hefur komið á okkar borð og þess vegna ekki verið neitt vandamál,“ segir hún. Það verður því ekki betur séð en maðurinn hafi tekið upp þessu á sitt eindæmi.

Ástarlásar eru alþjóðlegt fyrirbæri og eru til að mynda mörg þúsund ástarlásar á sumum brúm í París. Þetta var sérstakt vandamál á brúnni Pont des Arts þar sem nauðsynlegt var að fjarlæga alla lása þar sem þeir höfðu þyngt brúna um 45 tonn. 

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV