Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rómafólk: Ekki spákonur á faraldsfæti

Mynd: rúv / rúv
Rómafólk á Íslandi er ósýnilegur hópur. Þetta segir Sofiya Zahova, rannsóknarsérfræðingur við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Zahova sem er frá Búlgaríu hefur meðal annars rannsakað Rómafólk á Íslandi en heimildir eru um að Rómafólk hafi komið hingað til lands í byrjun tuttugustu aldar. Í dag og á morgun eru margir helstu sérfræðingar heims í málefnum Rómafólks saman komnir á vinnustofu í Veröld, húsi Vigdísar. Þar verður meðal annars fjallað um frásagnir Rómafólks.

 

Tvíþætt sjálfsmynd

Spegillinn ræddi við Sofiyu Zahovu um Rómafólk á Íslandi og heiminum öllum. Zahova segir að Rómafólk sé ein þjóð, í mörgum löndum. Þjóð sem tengist ekki neinu ákveðnu landsvæði. Rómafólk talar sama tungumál en ólíkar mállýskur eftir því hvar það býr. Þessi þjóð er talin rekja uppruna sinn til fólks sem bjó á Norður-Indlandi en fluttist búferlum til Evrópu á miðöldum. Zahova segir að  Rómafólk líti yfirleitt á sig sem Róma en líka sem ríkisborgara ákveðins ríkis. Rómafólk í Búlgaríu styðji þannig búlgarska fótboltalandsliðið og pólskt Róma-fólk það pólska. Sjálfsmynd þeirra sé þannig tvíþætt. Hún segir þó marga sjá fyrir sér að Rómafólk um allan heim sameinist, myndi hefðbundna þjóð eða vinni saman að því að stofna samtök sem myndu standa vörð um heildarhagsmuni Rómafólks. 

Ekki spákonur á faraldsfæti

 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Rómafólk í Bosníu.

 

Zahova segir mikilvægt að gera greinarmun á Rómafólki og því hvernig sígaunar birtast í listaverkum og skáldsögum. Í bókunum birtist einfaldlega ákveðin ímynd af fólki sem er sífellt á faraldsfæti, klætt litríkum fötum og með kristalkúlu og þessi ímynd endurspegli ekki endilega Rómafólk. Íslendingar eiga sennilega auðvelt með að skilja þetta segir hún og bendir á ímynd víkinga, þeir hafi flestir verið verslunarmenn í leit að betra lífi ekki drápsóðir óeirðaseggir. 

Komu til að kaupa hesta

Zahova segir að fjölmennustu Rómasamfélögin séu í Mið- og Austur-Evrópu en Rómafólk búi þó um allan heim, þannig hafi hópar Rómafólks til dæmis flust vestur um haf í kringum aldamótin 1900 rétt eins og margir gerðu í Evrópu og hér á landi og rannsóknir Zahovu hafa leitt í ljós að Rómafólk kom til Íslands snemma á 20. öld. 

Hún segir að árið 1912 hafi verið tekin ljósmynd af Rómafólki sem kom til Seyðisfjarðar sjóleiðina frá Danmörku. Myndin samrýmist vel skriflegum heimildum í danmörku um að á þessum tíma hafi Rómafólk siglt til Íslands að sumri  í þeim tilgangi að kaupa þar hesta og snúið aftur til Danmerkur um haustið. Fámennir hópar Rómafólks hafi sumsé komið til Íslands, rétt eins og til annarra Norðurlanda. 

Ósýnileg 

Zahova segir að í dag fari frekar lítið fyrir Rómafólki á Íslandi, þetta sé frekar ósýnilegur hópur en þó til staðar. Hingað komi hópar fólks frá Póllandi, Búlgaríu, Rúmeníu og fleiri löndum til þess að vinna, þar á meðal Rómafólk, það er þá einfaldlega skráð hér sem ríkisborgarar þessara ríkja. Þetta fólk komi hingað í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar og hún vonar að það eigi eftir að setjast hér að.  

Urðu blórabögglar eftir fall kommúnismans

Þrátt fyrir að Rómafólk sé yfirleitt með ríkisborgararétt í heimalandi sínu og eigi að njóta sömu réttinda og aðrir borgarar viðgengst víða mismunun. Stundum eru réttindin bara á blaði. Zahova segir fall kommúnismans hafa komið illa við margt Rómafólk efnahagslega. Margt þeirra hafi misst vinnuna í ríkisreknum verksmiðjum sem urðu gjaldþrota eða voru einkavæddar þegar ríki Austur-Evrópu tóku upp markaðshagkerfi. Efnahagsþrengingar sem fylgdu hafi stuðlað að aukinni þjóðernishyggju í þessum löndum og Rómafólk hafi í kjölfarið orðið eins konar blóraböggull, auðvelt fórnarlamb. Meirihlutinn í þessum löndum hafi snúist gegn því og kennt því um hitt og þetta og það hafi að sjálfsögðu haft áhrif á stöðu Rómafólks og viðhorf meirihlutans í löndunum til þess. 

 

epa04338799 Representatives of the Roma community from 25 states  take part in the ceremonies marking the 70th anniversary of the Roma Holocaust Day, that took place at the site of the former Nazi extermination camp Auschwitz II-Birkenau in Oswiecim,
Hópur Rómafólks kom saman fyrir nokkrum árum og minntust þess að 70 ár voru liðin frá helförinni gegn því.  Mynd: EPA - PAP
Auswitch: Fulltrúar Rómafólks frá 25 ríkjum minnast helfararinnar, talið er að nasistar hafi myrt 3000 úr konur, karla og börn úr samfélögum Rómafólks.

 

Alþjóðavæðing eflir baráttuna

Á skrifstofu Zahovu í Veröld, Húsi Vigdísar er merkilegt bókasafn. Hundruð bóka á Rómaní-tungumálinu eftir Rómahöfunda frá ýmsum löndum, margir hafa á síðustu árum fært hluta munnlegs sagnaarfs Romafólks á skriflegt form, ekki svo ólíkt því sem Íslendingar gerðu á sínum tíma, segir Zahova. Hún gleðst yfir því að nú á tímum netsins hafi Rómafólk tækifæri til að kynna sér frásagnir og skáldverk Rómafólks í öðrum löndum, þetta fylli það stolti og efli sjálfstraust þess. Alþjóða- og internetvæðingin hafi líka blásið hreyfingu Rómafólks víða um heim byr í seglin, gert aðgerðasinnum kleift að vekja athygli á sameiginlegum vandamálum og framtíðarsýn Rómafólks og berjast sameiginlega fyrir því að réttindi þess, séu virt. Zahova segir margt menntað Rómafólk berjast fyrir bættum hag og réttindum fjöldans, til dæmis til menntunar og heilbrigðisþjónustu og í dag og á morgun, sé hluti þessa hóps hér á Íslandi á vinnustofu í Veröld húsi Vigdísar,fólk sem beiti sér bæði sem fræðimenn og aðgerðarsinnar. Það sé í raun sögulegt enda hafi svo stór viðburður tengdur Rómafólki aldrei farið fram á Íslandi áður.