Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rjómaís í nýjar umbúðir til að draga úr plastnotkun

05.12.2019 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: Emmessís - Aðsend mynd
Emmessís hefur breytt umbúðum utan um rjómaís í því skyni að draga úr plastnotkun. Nýjar umhverfisvænni umbúðir eru að mestu úr hágæðapappa. Þá er ísinn settur í minni umbúðir með það að markmiði að minnka matarsóun. Framkvæmdastjóri Emmessís segir að þau hjá fyrirtækinu vilji mæta kröfum neytenda.

Í tilkynningu frá Emmessís segir að unnið sé að því að stíga skrefið til fulls og færa aðrar vörur í nýjar og uppfærðar umbúðir, með umhverfismál að leiðarljósi.

Pálmi Jónsson, framkvæmdastjóri Emmessís, segir að með nýju umbúðum rjómaíssins hafi fyrsta skrefið verið stigið. „Við ákváðum að byrja á því að ráðast á garðinn þar sem mest var þörf,“ segir hann. Mesta plastið sé í umbúðum rjómaíssins. Það sé svo á skammtímaplaninu að færa aðrar umbúðir fyrirtækisins í umhverfisvænna horf og þegar er verið að vinna að næstu skrefum, segir Pálmi.

„Plastið er á útleið og við fundum flottar umbúðir sem henta
fullkomlega til að tryggja sömu gæði áfram en með töluvert miklu minna
af plasti“, segir Pálmi.

Pálmi segir að þetta hafi verið meðal þeirra helstu stefnumála. Neytendur geri kröfu um að dregið sé úr plastnotkun og hugað að umhverfisvernd. Þau hjá Emmessís líti svo á að það sé þeirra samfélagslega skylda að reyna að mæta þeim kröfum og taka þátt í þeim.

Þá ætla þau úr stærri skömmtum í minni, sem vonandi dragi úr matarsóun. Pálmi bendir á að fólk hafi oft ekki mikið pláss í frystinum, svo sem fyrir 1,5 lítra af hálfborðuðum ís og þá endi hann oft í ruslinu. „Við komum til móts við það með fyrirferðarminni umbúðum og stuðlum vonandi að minni matarsóun í leiðinni“, segir hann.

Rjómaísinn í nýju umbúðunum er væntanlegur í verslanir á höfuðborgarsvæðinu á laugardaginn, og í kjölfarið um land allt, segir í tilkynningunni.