Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Risvandi á ekki að vera feimnismál

07.11.2019 - 08:36
Mynd: cc / cc
Meira en einni Viagra pillu var ávísað á hvern landsmann hér á landi í fyrra, eða rétt nærri 389 þúsund pillum. Eiríkur Orri Guðmundsson, sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum, segir það í raun ekki mikið. Risvandi sé algengur og þurfi ekki að vera feimnismál. Menn eigi ekki að örvænta ef stinningarvandi fari að segja til sín. Til séu lausnir.

Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu hafa 5.413 karlar og þrjátíu konur leyst út síldenafíl-lyf á þessu ári - en sílendafíl er virka efnið í Viagra. Flestir karlanna eru á aldrinum 55-74 ára, eða 3.171. Níu karlar, yngri en 20 ára, fengu lyfinu ávísað og 131 karl á aldrinum 20-30 ára.

„Ef við horfum á fjölda Íslendinga yfir fimmtugt, ef allir karlmenn eru reiknaðir með, þá fer það að slaga hátt í fimmtíu þúsund. Samkvæmt alþjóðlegum tölum þá má búast við því að helmingurinn af þessum hópi, og sennilega rúmlega það, séu með vægar og upp í alvarlegar ristruflanir. Ef bara þessi hópur er að taka eina töflu í mánuði þá skýrir það allan þennan fjölda, og það er ekkert rosalega mikið,“ segir Eiríkur Orri í Morgunútvarpi Rásar 2. 

Flestir upplifi stinningarvanda á lífsleiðinni

Hann segir að taflan leysi þó ekki vandann, það sé ekki alltaf svo auðvelt. Hins vegar slái hún á einkennin. Hann segir að flestir menn glími við stinningarvanda einhvern tímann á ævinni. Geri vandinn ítrekað vart við sig sé einfaldast að byrja á því að fara til heimilislæknis.

Til að mynda, ef menn eru yfir fimmtugu, þurfi að kanna hvort líkur séu á því að lífstílssjúkdómar séu farnir að gera vart við sig. Stinningarvandi geti verið merki um sykursýki, háþrýsting, aðrar efnaskiptaraskanir, svo sem hátt kólesteról eða blóðfitu. 

Hann segir að þá geti um tíu prósent manna, sem komnir eru yfir fertugt, búist við því að vera komnir með einhvers konar risvandamál. Þeir séu líklegri til að vilja bregðast við vandanum. Þegar menn undir þrítugu fari að finna fyrir stinningarvanda, þá er langlíklegast að vandinn sé sálrænn, segir Eiríkur Orri, og til dæmis tilkominn vegna kvíða.  

Skiptir máli að ræða um vandann

Hann segir að stinningarvandi sé ennþá feimnismál, miðað við hans reynslu, en þurfi alls ekki að vera það. Menn dragi það oft að leita sér hjálpar. Honum þyki þó yngri menn opnari fyrir því að ræða vandann. 

„Það hefur sem sagt lengi loðað við okkur karla að við ræðum ekkert okkar vandamál. Við viljum frekar stinga höfðinu í sandinn, en við erum svona aðeins farnir að líta upp.“ 

Miklu máli skipti að tjá sig og ræða málið við sinn maka. Skilningur geti skipt miklu máli og geti létt á áhyggjum manna. Hann segir að oft, þegar dragi úr áhyggjum og spennu, dragi einnig úr vandanum.

Fréttin hefur verið uppfærð með tölum frá Landlækni.