Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Risastórt grýlukerti féll á ferðakonu

01.03.2016 - 20:00
Minnstu munaði að stórslys yrði við Seljalandsfoss þegar stóreflis grýlukerti féll á götuna við fossinn, rétt við fætur konu sem þar stóð. Fólk flykkist á bak við fossinn þrátt fyrir viðvaranir.

 

Jórunn Rothenborg, leiðsögmaður og bílstjóri, var með hóp ferðamanna við Seljalandsfoss í gær og þrátt fyrir viðvaranir hennar fór fólk úr hennar hópi upp að fossinum. Hún segist hafa reynt að beina fólkinu til baka en án árangurs. Skyndilega heyrðust drunur

„Ég stekk til og átta mig á því að það er kona þarna sem hefur fengið stóreflis flykki yfir sig,“ segir Jóhanna. „Mannshæðar hátt grýlukerti, ef það er hægt að kalla þetta kerti. Þetta er semsagt stórt berg í rauninni, ísberg sem rennur niður og rétt, í orðsins fyllstu merkingu, framhjá höfðinu á konunni. En hún finnur þó að það rennur niður fyrir háls og niður á bakpokann og hún hnykkist til  og þegar ég kem að henni er hún ekki blaut hún er hreinlega öll í ískurli út um allt.“

Margt hefur verið rætt og ritað að undanförnu um hættur sem að erlendum ferðamönnum steðja. Hver á að vara fólk við hættum sem geta komið upp eins og við Seljalandsfoss? Jórunn Rothenborg segir erfitt að svara því.

„Allur þessi viðbragðshluti er náttúrlega í vinnslu. Það hefur tekið sinn tíma, svolítið langan tíma, alltof langan tíma í rauninni, finnst mér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
gislie's picture
Gísli Einarsson