Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Risastór áskorun fyrir Ísland“

15.06.2017 - 12:51
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 Mynd: RÚV
Brexit er risastór áskorun fyrir Ísland segir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mikil vinna er hafin innan stjórnsýslunnar við að greina þau áhrif sem útganga Bretlands úr ESB gæti haft á íslenska hagsmuni.

Viðræður um aðskilnað Breta við Evrópusambandið hefjast á mánudaginn en Bretar munu yfirgefa sambandið í lok mars árið tvöþúsund og nítján. Enn er óljóst hver staða Breta verður þá - til að mynda hvort Bretar verði á sameiginlega evrópska markaðnum eða ekki. Þetta skiptir miklu máli fyrir íslenska hagsmuni enda er Bretland gríðarmikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur.

Mikil vinna framundan

Í stjórnsýslunni hafa þessir hagsmunir verið kortlagðir undanfarið en fjallað var um hagsmuni sjávarútvegsins og landbúnaðarins á fundi sem atvinnu og nýsköpunarráðuneytið stóð fyrir í morgun. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, segir þetta fyrsta skrefið í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta: „Hvað tekur við? Það er bara greining upplýsinga, óformleg samtöl við Breta því við höfum þessi tvö ár til að fá skýrari mynd. En þetta er bara vinna“.

Ákveðin tækifæri en risastórar áskoranir

Aðgangur fyrir íslenskar vörur, sér í lagi sjávarafurðir, er mjög góður á Bretlandsmarkaði sem byggir að miklu leyti á EES samningnum. Ef ekki verður áfram byggt á honum þarf að semja um innflutning, tolla og svo framvegis. Þar eru tækifæri en miklu frekar árskoranir, segir Þorgerður Katrín: „Tækifærin eru að mín mati fyrst og fremst í sjávarútvegi, að við getum fengið aukinn aðgang að breskum markaði sem er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur Íslendinga, fyrir ferskan fisk, ákveðnar tegundir af unnum sjávarafurðum. Það er líka hægt að horfa á landbúnaðinn, þar eru ákveðin tækifæri en í heildina séð þá er Brexit ferlið risastór áskorun fyrir okkur Íslendinga og fyrir alþjóðasamfélagið í heild. Ég legg ríka áherslu á að hér verði áfram opnir markaðir og öflugt alþjóðasamstarf og þannig tryggjum við tækifæri fyrir framtíðina, fyrir unga fólkið. En þetta eru áskoranir.“

Bretar kynna sér íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið

Fulltrúar breskra stjórnvalda hafa komið hingað til lands undanfarna mánuði, meðal annars til að ræða samband ríkjanna eftir Brexit. „Bretar eru ekkert búnir að koma hérna einu sinni eða tvisvar, þeir eru búnir að koma hér nokkrum sinnum til að kynna sér meðal annars íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið“ segir Þorgerður Katrín.