Endurvinnsla á gömlum hugmyndum er ekkert nýtt í sögu Stjörnustríðs, allt aftur til fyrstu myndarinnar árið 1977, sem var markviss úrvinnsla á goðsögulegum minnum um ferð hetjunnar og fékk þar að auki heilmikið lánað frá öðrum kvikmyndum. Að Rise of Skywalker sæki þemu úr Return of the Jedi og nýti sér efnivið úr fyrri myndum kemur því ekki á óvart, rétt eins og við því er að búast að í Stjörnustríðsmynd fáum við að sjá glæsilegar tölvubrellur, forvitnilegar plánetur, undarlegar geimverur og krúttleg vélmenni – og þetta er allt sannarlega til staðar í Rise of Skywalker, og það er alveg hægt að njóta hennar á köflum sem sjónarspils, svo fremi sem maður kafi ekkert undir yfirborðið. Þá kemur fljótlega í ljós að myndin er algjör óreiða frá upphafi til enda. Sagan er stillt á hraðspólun, hetjurnar þjóta úr einu í annað, að því er virðist til að halda áhorfendum nægilega rugluðum svo við tökum ekki eftir að handritið hriplekur.
Rise of Skywalker staðfestir í raun vondan grun sem hefur plagað aðdáendur frá því í síðustu mynd: þessi þríleikur var aldrei úthugsaður. Ákveðnar hugmyndir eru kynntar til leiks í þeirri nýjustu sem hefur aldrei verið minnst á í fyrri myndunum tveimur og setja í raun ýmislegt úr skorðum þegar litið er yfir farinn veg. Þetta eru alls ekki slæmar hugmyndir og hefðu eflaust svínvirkað og haft sterk áhrif hefðu þær verið saumaðar saman við grunnefni þríleiksins frá upphafi. En það er nokkuð ljóst að engin hernaðaráætlun hefur legið fyrir þegar J.J. Abrams hóf vinnu við The Force Awakens fyrir nokkrum árum, enda var það upphaflega hugmyndin hjá Disney að fá þrjá ólíka leikstjóra til að gera hverja mynd og leyfa þeim að vinna á eigin forsendum, undir ákveðinni handleiðslu framleiðandanna, að sjálfsögðu.
Það er ekki ómögulegt að gera þríleik á þann hátt, jafnvel þótt engin skýr stefna eða lokapunktur sé til staðar. Við þurfum ekki að líta lengra en til upprunalegu myndanna hans George Lucas. Sjálfur hefur hann haldið því fram um árabil að allar myndirnar hafi verið plottaðar frá upphafi, en þegar rýnt er í samtímaheimildir frá framleiðslu fyrstu Stjörnustríðsmyndanna kemur í ljós að sagan er mun flóknari en svo. Nægir að nefna tvær stærstu fléttur gamla þríleiksins, sem var báðum bætt við í framhaldsmyndunum: að Svarthöfði sé faðir Loga, og að Lilja prinsessa sé systir hans. En hver mynd bætti við og byggði ofan á þá sem á undan kom og þrátt fyrir smávegis misræmi á milli mynda varð á endanum úr heilsteyptur þríleikur.
En Disney klúðraði uppbyggingunni í sínum myndum einmitt með því að velja þessa leið og skipta svo um skoðun í miðjum þríleik. Miðjumyndin, The Last Jedi, tók nefnilega heilmikla áhættu og sneri upp á margar klisjur Stjörnustríðsmyndanna. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Rian Johnson gerði mynd sem stuðaði marga aðdáendur og skipti í raun áhorfendum í tvær fylkingar. Sjálfur var ég hrifinn af myndinni – þrátt fyrir ákveðna vankanta – og hefði viljað sjá Johnson ganga enn lengra í að ögra hefðinni. The Last Jedi fjallaði um að segja skilið við fortíðina og fara nýjar leiðir – myndin var ein stór stefnuyfirlýsing um að Stjörnustríð þyrfti bráðnauðsynlega að gera eitthvað nýtt. Vissulega eru það skrítin skilaboð fyrir miðjumynd í þríleik og líklega erfitt að taka næstu skref. Þá ábyrgð átti leikstjórinn Colin Trevorrow að bera, en hann var látinn fara vegna listræns ágreinings við Disney, og J.J. Abrams sóttur aftur fyrir þriðju myndina. Með því virðist Disney hafa ákveðið að spóla afturábak um eina mynd og láta eins og The Last Jedi hafi aldrei verið til.
The Rise of Skywalker virkar næstum eins og beint framhald af Force Awakens, sem skapar auðvitað furðulegt ósamræmi innan þríleiksins. Það mætti halda að framleiðendurnir hefðu loksins fattað um hvað þeir vildu að myndirnar væru og reynt að troða öllu inn á lokasprettinum, sem útskýrir á sinn hátt alla óreiðuna. Auk þess gerir Rise of Skywalker í því að má út ákvarðanir sem voru teknar í miðjumyndinni. Þetta má sjá bæði í aðalatriðum handritsins – til dæmis með því að breyta sögunni um uppruna aðalhetjunnar – og í alls kyns smærri atriðum, sem sagt þegar draugur Loga geimgengils grípur geislasverðið, bein tilvísun í afar umdeilt atriði úr Last Jedi – en fyrst og fremst sýnir myndin andúð sína á forveranum með því að leggja áherslu á formúlur og fortíðarþrá, því Rise of Skywalker er bæði örugg og fyrirsjáanleg.
Vissulega hefði verið erfitt að halda áfram í þá átt sem Johnson færði þríleikinn, en að gefast alfarið upp og setja í bakkgír til að þóknast ákveðnum áhorfendahóp ber merki um leti og kjarkleysi. Ég held ég hafi aldrei áður séð kvikmynd sem þjáist af þvílíkri minnimáttarkennd gagnvart áhorfendum sínum, því Rise of Skywalker virkar eins og mynd sem er leikstýrt af markaðsnefnd og er meira umhugað um að leiðrétta meint mistök síðustu myndar en að halda áfram að segja áhugaverða sögu. Hvað slíkar leiðréttingar varðar er mikilvægt að ræða eitt mál sem hefur vakið töluverða athygli eftir að myndin var frumsýnd: hvernig ein af aðalpersónum Last Jedi var jaðarsett í Rise of Skywalker, að því er virðist að ástæðulausu.