Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ris og fall stjörnuveldis

Mynd: Disney / Disney

Ris og fall stjörnuveldis

09.01.2020 - 08:58

Höfundar

Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi hefur aldrei áður séð kvikmynd sem þjáist af jafnmikilli minnimáttarkennd gagnvart áhorfendum sínum og nýjasta Stjörnustríðsmyndin, Rise of Skywalker. „Hún virkar eins og mynd sem er leikstýrt af markaðsnefnd og er meira umhugað um að leiðrétta meint mistök síðustu myndar en að halda áfram að segja áhugaverða sögu.“

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Star Wars: The Rise of Skywalker er þriðja og síðasta myndin í nýja Stjörnustríðs-þríleiknum frá Disney og sú níunda og síðasta þegar litið er til heildarsögunnar um Geimgengla-fjölskylduna, sem hófst með Loga Geimgengli í Stjörnustríði George Lucas árið 1977. Þar með lýkur langri sögu um baráttu góðs og ills í fjarlægum vetrarbrautum, en nýjasta myndin slær ekki síður botninn í merkilega kvikmyndasögu, því saga Stjörnustríðsmyndanna sjálfra er margþætt, flókin og ruglingsleg, og nýja myndin í raun stórfurðuleg viðbót við þá sögu.

The Rise of Skywalker heldur áfram með ævintýri ljósu hetjunnar Rey og myrku hetjunnar Kylo Ren og baráttu uppreisnarsinna gegn hinni illu Frumreglu, arftaka Keisaraveldisins úr gömlu myndunum. Samband Kylo og Rey er flókið og tilfinningaþrungið og í raun hjarta kvikmyndarinnar – allt skrautið í kringum hinar aðalpersónurnar er samhengislaus flækja sem snýst fyrst og fremst um að troða inn eins mörgum hasarsenum og hægt er. Í óþokkanum Kylo býr enn vottur af góðmennsku og hetjan Rey þekkir freistinguna sem mun leiða hana í faðm myrkursins. Hver bjargar hverjum? er stóra spurningin í þessu uppgjöri, sem endurómar hugmyndafræði síðustu myndarinnar í upprunalega þríleiknum, The Return of the Jedi, þar sem Palpatine keisari reynir að snúa Loga til illsku og Svarthöfði uppgötvar góðmennskuna innra með sér til að bjarga syni sínum. Það er svo sem ekkert leyndarmál lengur að Palpatine keisari er snúinn aftur í nýjustu myndinni og vill gera allt sem í valdi sínu stendur til að losa sig við Rey og ná völdum í alheiminum.

Endurvinnsla á gömlum hugmyndum er ekkert nýtt í sögu Stjörnustríðs, allt aftur til fyrstu myndarinnar árið 1977, sem var markviss úrvinnsla á goðsögulegum minnum um ferð hetjunnar og fékk þar að auki heilmikið lánað frá öðrum kvikmyndum. Að Rise of Skywalker sæki þemu úr Return of the Jedi og nýti sér efnivið úr fyrri myndum kemur því ekki á óvart, rétt eins og við því er að búast að í Stjörnustríðsmynd fáum við að sjá glæsilegar tölvubrellur, forvitnilegar plánetur, undarlegar geimverur og krúttleg vélmenni – og þetta er allt sannarlega til staðar í Rise of Skywalker, og það er alveg hægt að njóta hennar á köflum sem sjónarspils, svo fremi sem maður kafi ekkert undir yfirborðið. Þá kemur fljótlega í ljós að myndin er algjör óreiða frá upphafi til enda. Sagan er stillt á hraðspólun, hetjurnar þjóta úr einu í annað, að því er virðist til að halda áhorfendum nægilega rugluðum svo við tökum ekki eftir að handritið hriplekur.

Rise of Skywalker staðfestir í raun vondan grun sem hefur plagað aðdáendur frá því í síðustu mynd: þessi þríleikur var aldrei úthugsaður. Ákveðnar hugmyndir eru kynntar til leiks í þeirri nýjustu sem hefur aldrei verið minnst á í fyrri myndunum tveimur og setja í raun ýmislegt úr skorðum þegar litið er yfir farinn veg. Þetta eru alls ekki slæmar hugmyndir og hefðu eflaust svínvirkað og haft sterk áhrif hefðu þær verið saumaðar saman við grunnefni þríleiksins frá upphafi. En það er nokkuð ljóst að engin hernaðaráætlun hefur legið fyrir þegar J.J. Abrams hóf vinnu við The Force Awakens fyrir nokkrum árum, enda var það upphaflega hugmyndin hjá Disney að fá þrjá ólíka leikstjóra til að gera hverja mynd og leyfa þeim að vinna á eigin forsendum, undir ákveðinni handleiðslu framleiðandanna, að sjálfsögðu.

Það er ekki ómögulegt að gera þríleik á þann hátt, jafnvel þótt engin skýr stefna eða lokapunktur sé til staðar. Við þurfum ekki að líta lengra en til upprunalegu myndanna hans George Lucas. Sjálfur hefur hann haldið því fram um árabil að allar myndirnar hafi verið plottaðar frá upphafi, en þegar rýnt er í samtímaheimildir frá framleiðslu fyrstu Stjörnustríðsmyndanna kemur í ljós að sagan er mun flóknari en svo. Nægir að nefna tvær stærstu fléttur gamla þríleiksins, sem var báðum bætt við í framhaldsmyndunum: að Svarthöfði sé faðir Loga, og að Lilja prinsessa sé systir hans. En hver mynd bætti við og byggði ofan á þá sem á undan kom og þrátt fyrir smávegis misræmi á milli mynda varð á endanum úr heilsteyptur þríleikur.

En Disney klúðraði uppbyggingunni í sínum myndum einmitt með því að velja þessa leið og skipta svo um skoðun í miðjum þríleik. Miðjumyndin, The Last Jedi, tók nefnilega heilmikla áhættu og sneri upp á margar klisjur Stjörnustríðsmyndanna. Leikstjórinn og handritshöfundurinn Rian Johnson gerði mynd sem stuðaði marga aðdáendur og skipti í raun áhorfendum í tvær fylkingar. Sjálfur var ég hrifinn af myndinni – þrátt fyrir ákveðna vankanta – og hefði viljað sjá Johnson ganga enn lengra í að ögra hefðinni. The Last Jedi fjallaði um að segja skilið við fortíðina og fara nýjar leiðir – myndin var ein stór stefnuyfirlýsing um að Stjörnustríð þyrfti bráðnauðsynlega að gera eitthvað nýtt. Vissulega eru það skrítin skilaboð fyrir miðjumynd í þríleik og líklega erfitt að taka næstu skref. Þá ábyrgð átti leikstjórinn Colin Trevorrow að bera, en hann var látinn fara vegna listræns ágreinings við Disney, og J.J. Abrams sóttur aftur fyrir þriðju myndina. Með því virðist Disney hafa ákveðið að spóla afturábak um eina mynd og láta eins og The Last Jedi hafi aldrei verið til.

The Rise of Skywalker virkar næstum eins og beint framhald af Force Awakens, sem skapar auðvitað furðulegt ósamræmi innan þríleiksins. Það mætti halda að framleiðendurnir hefðu loksins fattað um hvað þeir vildu að myndirnar væru og reynt að troða öllu inn á lokasprettinum, sem útskýrir á sinn hátt alla óreiðuna. Auk þess gerir Rise of Skywalker í því að má út ákvarðanir sem voru teknar í miðjumyndinni. Þetta má sjá bæði í aðalatriðum handritsins – til dæmis með því að breyta sögunni um uppruna aðalhetjunnar – og í alls kyns smærri atriðum, sem sagt þegar draugur Loga geimgengils grípur geislasverðið, bein tilvísun í afar umdeilt atriði úr Last Jedi – en fyrst og fremst sýnir myndin andúð sína á forveranum með því að leggja áherslu á formúlur og fortíðarþrá, því Rise of Skywalker er bæði örugg og fyrirsjáanleg.

Vissulega hefði verið erfitt að halda áfram í þá átt sem Johnson færði þríleikinn, en að gefast alfarið upp og setja í bakkgír til að þóknast ákveðnum áhorfendahóp ber merki um leti og kjarkleysi. Ég held ég hafi aldrei áður séð kvikmynd sem þjáist af þvílíkri minnimáttarkennd gagnvart áhorfendum sínum, því Rise of Skywalker virkar eins og mynd sem er leikstýrt af markaðsnefnd og er meira umhugað um að leiðrétta meint mistök síðustu myndar en að halda áfram að segja áhugaverða sögu. Hvað slíkar leiðréttingar varðar er mikilvægt að ræða eitt mál sem hefur vakið töluverða athygli eftir að myndin var frumsýnd: hvernig ein af aðalpersónum Last Jedi var jaðarsett í Rise of Skywalker, að því er virðist að ástæðulausu.

Mynd með færslu
 Mynd: Star Wars - Disney
Kelly Marie Tran í hlutverki Rose Tico.

Kelly Marie Tran var kærkomin viðbót við leikarahópinn, bandarísk leikkona af asískum uppruna sem braut þar með blað í sögu Stjörnustríðsmyndanna sem fyrsta asíska aðalpersónan (í kvikmyndaröð sem hefur alla tíð sótt grimmt í brunn asískrar kvikmyndagerðar). Í kjölfar The Last Jedi braust fram á netinu þvílík hatursorðræða tengd hennar persónu og gagnvart leikkonunni sjálfri að Tran flúði samfélagsmiðlana og samhliða því kviknaði umræða um rasisma og jaðarsetningu í Hollywood. Ég vil ítreka að persóna hennar, Rose Tico, var jöfn hinum aðalpersónunum í síðustu mynd, þjónaði lykilhlutverki í lokabardaganum og fékk meira að segja sitt eigið stef frá John Williams. Það kom því mörgum á óvart að sjá að í Rise of Skywalker er Rose Tico varla til staðar, heldur er látin hanga heima í bækistöðvunum alla myndina, og söguþræðirnir í kringum hana eru sundurskornir, rétt eins og aðrir þræðir Last Jedi. En jaðarsetning Rose Tico verður sérstaklega sár í tengslum við víðara samhengið og Disney virkar eins og það hafi lúffað fyrir hatursfullu aðdáendunum. Vissulega er ekki hægt að fullyrða að fyrirtækið hafi tekið ákvörðun um slíkt, en því verður ekki neitað að með því að fjarlægja Rose úr sögunni sendir Disney slæm skilaboð til áhorfenda, hvort sem framleiðendur eru meðvitaðir um þau eða ekki. Það hefði verið lítið mál að skrifa Rose inn í þessa mynd – að minnsta kosti gæti óreiðan varla orðið meiri.

Ég heyrði nýju orðasambandi fleygt um Disney um daginn, á ensku, að samsteypan væri „passíft prógressíf“, það er að hún þykist vera framsækin eða prógressíf, en gerir það með minnstu mögulegu fyrirhöfn. Á yfirborðinu segist Disney þannig skarta fjölbreytilegu leikaraliði, en þegar kemur að því að styðja við bakið á leikkonu sem sætir einelti þá neitar fyrirtækið að koma til hjálpar. Lýsingin „passíft prógressíft“ var hins vegar notuð í tengslum við framsetningu á samkynhneigðum persónum hjá Disney og hvernig samsteypan gefur iðulega í skyn að ákveðnar persónur gætu verið samkynhneigðar, en stendur svo aldrei við loforðin eða felur allt eftir bestu getu – sem dæmi má nefna umræður í kringum LeFou í Fríðu og dýrinu, Elsu í Frosinni og Valkyrjuna hjá Marvel – og Rise of Skywalker lofaði okkur fyrsta samkynhneigða kossinum í Stjörnustríðsmynd. Að sjálfsögðu gerðu margir ráð fyrir að þar með fengju aðalpersónurnar Poe og Finn loksins að koma út úr skápnum, en svo reyndist ekki vera – kossinn var falinn í bakgrunninum hjá algjörum aukapersónum og auk þess var lögð kjánalega mikil áhersla á að Poe væri alveg örugglega gagnkynhneigður.

Þessi dæmi minna okkur á hvað stórmyndir á borð við Stjörnustríð hafa mikil áhrif á umræðuna út á við og að erfitt er að fjalla um mynd eins og Rise of Skywalker án þess að velta fyrir sér stærra samhenginu. Það á sérstaklega við um þennan lokakafla, því hann er hluti af langri hefð Stjörnustríðsmynda og á í beinum og óbeinum samræðum við allar sem á undan komu. En The Rise of Skywalker hefur meiri áhuga á að arka vandlega troðnar slóðir með áherslu á hasar umfram handrit heldur en að segja nokkuð nýtt og með það í huga er líklega ágætt að sagan af Geimgengla-fjölskyldunni sé loksins á enda.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Skiptar skoðanir á nýju Stjörnustríðs kvikmyndinni

Flóðhestanunnur og óreiða frá upphafi til enda

Kvikmyndir

Aðdáendur ósáttir við nýja Stjörnustríðsmynd

Kvikmyndir

Leikur að væntingum í „The Last Jedi“