Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rio Tinto neitar að tjá sig um ljósbogann

22.07.2019 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engar frekari upplýsingar fást frá forsvarsmönnum Rio Tinto um atvik sem varð til þess að kerskála þrjú var lokað í nótt. Ljósbogi myndaðist þegar ker ofhitnaði en forstjórinn sagði í tilkynningu að óróleiki í rekstri skýrði lokunina. Maður lést í ljósbogaslysi í Straumsvík 2001.

Þriðjungi framleiðslunnar lokað

Framkvæmdastjórn Rio Tinto í Straumsvík ákvað í gærkvöldi og nótt að loka öllum kerskála þrjú eftir að ljósbogi myndaðist vegna bilunar í keri. Þriðjungur framleiðslunnar liggur því niðri. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa þó ekkert viljað tjá sig um málið við fjölmiðla og biðjast undan viðtali. Ljósbogi er margfalt heitari en yfirborð sólar, en enginn starfsmaður var nálægt þegar atvikið átti sér stað. 

Banaslys vegna ljósboga í Straumsvík 2001

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ljósbogi sem þessi myndast í álverinu í Straumsvík. 22. júní 2001 varð þar alvarlegt vinnuslys, í sama kerskála og nú er slökkt á, þegar tveir menn brenndust alvarlega við gangsetningu á rafgreiningarkerfi. Ljósbogi myndaðist þá við skammhlaup og kviknaði í fötum mannanna. Þeir voru fluttir illa brenndir á gjörgæsludeild Landspítalans. Annar lést af sárum sínum nokkrum dögum síðar. 

Árið 2006 var kerskála þrjú einnig lokað, eftir að rafmagnið fór af. Tjónið hljóp á milljörðum. 

Getur tekið mánuði að koma kerjunum í gang á ný

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu getur tekið marga mánuði að koma kerjunum 160 í gang á ný. Ekki fást upplýsingar um það frá forsvarsmönnum Rio Tinto hvort hafi náðst að bjarga álinu eða hvort það hafi storknað í kerjunum. Fréttastofa hafði samband við fjölmiðlafulltrúa Rio Tinto í Bretlandi, en þaðan fengust heldur engin svör.