
Í lögum um sáttanefnd segir að ef sýnt þyki að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar geti ríkisstjórnin skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Samráð verði haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu vonast til að menn kæmu með opnum huga að þessu en skipan hennar er háð því að deiluaðilar fallist á skipan nefndarinnar.
Nefndin fær þá sérstakt skipunarbréf og segir forsætisráðherra að það verði utanaðkomandi aðilar sem skipi nefndina.
Stjórnarandstaðan lagði til að sáttanefnd yrði skipuð þegar lítið miðaðist í samkomulagsátt í læknadeilunni á sínum tíma. Verkfallsaðgerðir þeirra voru þá ekki hafnar. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, taldi sáttanefndina ekki tímabæra þá. Hann bætti við að slík nefnd væri töluvert inngrip þar sem þá væri ríkið í raun að taka yfir verkefni ríkissáttasemjara.