Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkisstjórnin setur á fót átakshóp vegna fárviðrisins

13.12.2019 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að skipa átakshóp vegna fárviðrisins sem gekk yfir landið á þriðjudag og miðvikudag. Hópurinn vinnur meðal annars að tillögum á úrbótum á innviðum í raforku og fjarskiptum. Öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi. Stefnt er að því að hópurinn skili tillögum sínum í byrjun mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Hópurinn skal „meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.“ Þá hefur starfshópnum einnig verið falið að skoða samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV.

Sérstök áhersla verður lögð á afhendingaröryggi raforku. Kallað verður eftir skýrslum og greiningum frá Landsneti og dreifiveitum á því tjóni á flutnings- og dreifikerfi raforku sem varð nú í vikunni, hvernig fyrirtækin voru undirbúin, hvernig unnið var í samræmi við viðbragðsáætlanir þeirra og um hvað hefði betur mátt fara.

Starfshópurinn greinir svo upplýsingarnar og leggur fram tillögur um úrbætur á flutnings- og dreifikerfi raforku svo það geti betur tekist á við slíka atburði. Þannig verði hægt að lágmarka það samfélags- og efnahagslega tjón sem hlýst af langvarandi og víðtæku rafmagnsleysi. 

Þeim hefur þá verið falið að leggja mat á tiltækt varaafl í landinu við slíkar aðstæður og stýringu þess. Einnig skal hópurinn taka til umfjöllunar þær tillögur sem þegar liggja fyrir um einföldun leyfisveitingaferla hvað varðar framkvæmdir í flutningskerfinu. 

Fimm ráðuneyti koma að skipun starfshópsins. Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, fer fyrir vinnu starfshópsins, segir á vef Stjórnarráðsins.