Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkisstjórnin fundar um hertar aðgerðir síðdegis

22.03.2020 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin kemur saman til fundar síðdegis í dag til að funda um minnisblað sóttvarnarlæknis. Þar er lagt til að aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi verði hertar. Búast má við að samkomur með fleiri en 20 eða 30 verði bannaðar og að stöðum þar sem mikil nánd er fyrir hendi verði lokað. Þetta á við um hárgreiðslustofur, snyrtistofur og nuddstofur. Leik-og grunnskólum verður ekki lokað til að byrja með.

Reiknað er með að þessar hertu reglur taki gildi á miðnætti annað kvöld. Samkomubann var sett fyrir tæpri viku þar sem samkomur með fleiri en 100 voru bannaðar og öllum framhalds-og háskólum var lokað.

Síðan þá hefur tala sýktra hækkað nokkuð og voru þeir 473 í gær. 457 eru í einangrun og tólf á sjúkrahúsi. 

Tvö sveitarfélög hafa nú þegar gripið til hertra aðgerða. Í Vestmannaeyjum eru staðfest smit orðin 27. Þar hafa  allar samkomur með fleiri en tíu verið bannaðar auk þess sem hægt er að grípa til hertra skilyrða varðandi sóttkví. 

Tekin voru sýni úr þrjátíu börnum og fjölskyldum þeirra í gærkvöld og í morgun og voru þau send veirufræðideild Landspítalans með fyrstu ferð Herjólfs í morgun. 

Í Húnaþingi vestra var sett á hálfgert útgöngubann vegna gruns um víðtækt smit. Frá klukkan tíu í gærkvöld var öllum íbúum gert að sæta svokallaðri úrvinnslusóttkví. 

Það felst í því að aðeins einn af hverju heimili má sækja aðföng. Þá er hámarksfjöldi þeirra sem má koma saman fimm. Fimm smit hafa verið staðfest í sveitarfélaginu og er hámarksfjöldi þeirra sem má koma saman fimm.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV