Ríkisstjórnin félli miðað við nýjan Þjóðarpúls

01.10.2019 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin væri fallin ef gengið yrði til kosninga nú samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Framsóknarflokkurinn tapar fylgi milli kannana og Flokkur fólksins þurrkast út.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup

Þjóðarpúls Gallup 2. október 2019 samanborið við kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
25,3%
23,5%
Samfylkingin
12,1%
16,1%
Miðflokkurinn
10,9%
12,3%
Vinstri græn
16,9%
12,0%
Viðreisn
6,7%
11,2%
Píratar
9,2%
9,7%
Framsóknarfl.
10,7%
7,9%
Fl. fólksins
6,9%
4,3%
Sósialistafl.
0%
2,7%
Aðrir
0%
0,3%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 29. september 2019. Heildarúrtaksstærð var 8.140 og þátttökuhlutfall var 52,4%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Fylgi flokka breytist lítið milli mánaða í nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Tæplega 24 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar fram í dag. Liðlega 16 prósent Samfylkinguna og ríflega tólf prósent Miðflokkinn. Tólf prósent myndu kjósa Vinstri hreyfinguna - grænt framboð og rúmlega ellefu prósent Viðreisn. Nær tíu prósent myndu kjósa Pírata, næstum 8 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn - um fjögur prósent Flokk fólksins og þrjú prósent Sósíalistaflokkinn.

Fleiri Sjálfstæðisþingmenn

Ef gengið yrði til kosninga núna Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig einum manni frá síðustu kosningum og fengi 17 þingmenn miðað við greiningu Gallup á niðurstöðum Þjóðarpúlsins. Samfylkingin myndi bæta við sig fjórum þingmönnum og fengi ellefu menn kjörna. 

Miðflokkurinn fékk 7 þingmenn í síðustu kosningum og myndi bæta við sig einum ef gengið yrði til kosninga núna. 

Vinstri græn missa þrjá þingmenn og myndu ná átta inn á þing, Viðreisn myndi bæta við sig fjórum þingmönnum og Píratar myndu standa í stað með sex þingmenn.

Framsóknarflokkurinn fékk átta þingmenn í síðustu kosningum en nú fengi hann fimm. Flokkur fólksins sem fékk fjóra þingmenn í kosningum myndi hins vegar ekki fá neinn fulltrúa kjörinn.

Tæplega 51 prósent þeirra sem taka afstöðu segjast styðja ríkisstjórnina. Engu að síður væri hún fallin ef gengið yrði til kosninga nú.

Betri staða en í könnun MMR

Miðað við nýjasta Þjóðarpúls Gallup stendur Sjálfstæðisflokkurinn mun betur að vígi en í könnun MMR sem birt var 23. september. Þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 18,3 prósent fylgi og hafði aldrei mælst óvinsælli í könnun MMR.

Munurinn á þessum mismunandi niðurstöðum á skömmum tíma liggur að öllum líkindum í aðferðafræði MMR og Gallup. Könnun MMR er gerð á tveggja vikna tímabili miðað við að Gallup gerir könnun sína á einum mánuði. Þá er svarafjöldi í könnun Gallup mun meiri en hjá MMR en öll svör fást úr álitsgjafahópum könnunarfyrirtækjanna.

Þá þarf að taka tillit til vikmarka á fylgi hvers flokks í könnunum. Þeim mun meira fylgi sem framboð mælist með, þeim mun stærri verða vikmörkin. Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5 prósenta fylgi og 1,4 prósentustiga vikmörk. Það þýðir að fylgið gæti verið að bilinu 22,1-24,9 prósent.

Í síðustu könnun MMR þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 18,3 prósent fylgi voru vikmörkin 2,6 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn gæti þess vegna hafa verið með fylgi á bilinu 15,7-20,9 prósent.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi