Ríkisstjórnin eigi að lýsa yfir neyðarástandi

30.04.2019 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Landvernd hvetur ríkisstjórnina til að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Framkvæmdastjóri Landverndar, segir að aðgerðaáætlun stjórnvalda gangi ekki nógu langt. 

Stjórn Landverndar lagði fram sex tillögur að ályktunum á aðalfundi félagsins í kvöld. Á fundinum var rætt um að vernda þurfi víðerni landsins, banna hvalveiðar og fleira. Þá fékk ríkisstjórnin snarpa brýningu frá samtökunum. 

„Aðalfundur Landverndar skorar á ríkisstjórn Íslands að lýsa því yfir að því yfir að það sé neyðarástand í loftslagsmálum. Ástandið er þannig að framtíð barnanna okkar er verulega ógnað og framtíð mjög margra lífvera á jörðinni er verulega ógnað. Við verðum að grípa til aðgerða og við verðum að gera það strax. Þetta er neyðarástand,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

En stjórnvöld hafa samþykkt ákveðna aðgerðaáætlun. Er það ekki nóg?

„Nei, sú aðgerðaáætlun er mjög langt frá því að vera nóg. Aðalfundur tók líka fyrir það að aðgerðaáætlun verður að vera tímasett. Hún verður að vera magnbundin. Hún verður að ná til allra sviða samfélagsins sem eru að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þessi aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir gengur alls ekki nógu langt og það er mjög erfitt að vinna eftir henni þegar hún er hvorki tímasett né magnbundin,“ segir Auður.

Í álytkun aðalfundar Landverndar eru lagðar til aðgeðir í tíu liðum sem eiga að skila skjótum samdrætti í losun. Meðal annars innheimt verði kolefnisgjald af flug- og skipsfarþegum sem hingað koma og að kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti verði hækkað. Einnig að styrkjakerfið í landbúnaði verði endurskipulagt og dregið verði úr framleiðslu dýrða afurða um fjörutíu prósent.

Alls eru tillögurnar í ályktun Landverndar tíu talsins:

  • Kolefnisgjald - 10% af fjargjaldi hvers farþega með alþjóðaflugi og 3000 kr/farþega með skemmtiferðaskipi sem kemur til landsins. Skatturinn fari beint í verkefni um kolefnisbindingu, t.d. endurheimt votlendis á Íslandi.
  • Lífeyrissjóðir og aðrir stærri fjárfestingarsjóðir, skuldbindi sig til að allar fjárfestingar þeirra til næstu fimm ára standist markmið Parísarsáttmálans. Loftslagsvænar fjárfestingar (Paris proof fjárfestingar) verði skylda fyrir alla opinbera sjóði.
  • Kolefnisgjald á bensín og dísel verði aukinn um 200% til 2021og féið eyrnamerkt bættum almenningssamgöngum og öðrum vistvænum samgöngukostum eins og borgarlínu.
  • Að sala á nýjum dísel og bensínbílum verði bönnuð frá 2023 og að bíleigendur verði hvattir til þess að breyta bílum sínum í metanbíla með nauðsynlegum hvötum.
  • Að fyrirtæki þurfi fyrir 2022 að meta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni með viðurkenndum hugbúnaði og að þau greiði kolefnisgjald samkvæmt því. Kolefnisgjaldið renni til loftslagsverkefna eða til hækkunar persónuafsláttar.
  • Að innlend matvælaframleiðsla stuðli að loftslagsvænni landnotkun og neyslu. Endurskipuleggja styrkjakerfi í landbúnaði þannig að bændur geti haft búsetu og atvinnu á býlum sínum en dregið verði úr framleiðslu dýraafurða um 40% til 2030 Framleiðsla á matvælum úr plöntum stórefld með framleiðslustyrkjum og dregið úr innflutningi.
  • Að vistvænt skipulag verði haft að leiðarljósi í þéttbýlum og sveitarfélög skylduð til þess að meta loftslagsáhrif af sinni skipulagsgerð.
  • Að gerðar verði mun strangari kröfur til stóriðju varðandi að draga úr sinni losun, t.d með því að nýta betri framleiðsluferli. Fyrirtæki í stóriðju verði skyldug til þess að kolefnisjafna sína losun þrátt fyrir að sú losun sé hluti af ETS kerfinu.
  • Að allar bílaleigur verði skuldbundnar til þess að kaupa eingöngu inn vistvæna bíla frá 2022.
  • Að notkun á hagvexti sem mælikvarða fyrir velsæld samfélagsins verði hætt og raunhæfari mælikvarðar teknir upp (eins og SPI)

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi