Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkislögreglustjóri skynjar gremju í sinn garð

Mynd með færslu
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri Mynd: Freyr Arnarson - RUV
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segist vona að deilum innan lögreglunnar fari að ljúka. Hann segist þó enn skynja gremju á meðal lögreglumanna í hans garð.

Þetta sagði Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, að loknum fundi sem hann sat ásamt stjórn Landssambands lögreglumanna í morgun. „Þetta var vinnufundur sem ég og mínir starfsmenn höldum með Landssambandi lögreglumanna, að fara yfir ýmis mál sem hafa verið í brennidepli að undanförnu. Þetta var mjög góður fundur og við fórum í gegnum ýmis mál í tvo klukkutíma og munum halda áfram að funda,“ sagði

Aðspurður hvort enn væru deilur innan lögreglunnar eftir fundinn svaraði Haraldur: „Ég vona nú að deilur fari að sjatna innan lögreglunnar, að minnsta kosti þannig að við förum að tala saman innanhúss en ekki út á við.“

Á fundinum var farið efnislega yfir þau mál sem deilt hefur verið um að undanförnu, svo sem bílamál og fatamál. Þá var umrætt viðtal við Harald í Morgunblaðinu rætt. „Ég fór í gegnum þetta viðtal í lokin já og við ræddum það aðeins. En það var ekki aðalefni fundarins.“

Lögreglumenn hafa rætt sín á milli hvort lýsa eigi yfir vantrausti á störf Haralds í embætti ríkislögreglustjóra. Hann segir það ekki hafa komið til tals á fundinum.  „Nei, ekki það en ég skynja að þeir eru svona eitthvað óánægðir með mig, ýmsir hverjir.“

Var sú óánægja látin í ljós á fundinum?

„Þetta var mjög hreinskiptinn fundur og gagnrýninn í minn garð en ágætur.“

Haraldur sagðist ekki eiga von á frekari deilum innan lögreglunnar, í það minnsta ekki af hans hálfu. „Nú held ég að menn leggi bara niður vopnin og fari að vinna sína vinnu innanhúss, byggja upp lögregluna til framtíðar og traust.“

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, gaf ekki kost á viðtali eftir fundinn. Stjórn sambandsins fundar með fulltrúum lögreglufélaganna síðar í dag.