Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ríkislögreglustjóri lofaði að bæta ráð sitt

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Dómsmálaráðuneytið segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra hafa gengist við misgjörðum sínum í samskiptum við Björn Jón Bragason rithöfund og Sigurð Kolbeinsson þáttastjórnanda á Hringbraut. Í bréfi til ráðuneytisins áréttaði Haraldur að hann myndi gæta sín í framtíðinni. Af þeirri ástæðu og til að gæta meðalhófs ákvað ráðuneytið að áminna ekki Harald. 

Fréttastofa greindi frá því seint í síðasta mánuði að umboðsmaður Alþingis hefði óskað eftir því við dómsmálaráðuneytið að það útskýrði af hverju það áminnti ekki ríkislögreglustjóra þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun þeirra um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Bréfin voru skrifuð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra.

Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að framganga Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, hefði verið ámælisverð. Haraldur hafði sakað fjölmiðlamennina um að bera ábyrgð á ólögmætri meingerð vegna umfjöllunar þeirra um efnahagsbrotadeild embættisins.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis kom fram að fjölmiðlamennirnir tveir teldu að framkoma ríkislögreglustjóra hafi verið það alvarleg að það kallaði á áminningu. 

Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir skýringum frá ríkislögreglustjóra á því að hverjum sú ólögmæta meingerð, sem ríkislögreglustjóri sakaði fjölmiðlamennina um, beindist. Svar ráðuneytisins til umboðsmannsins ber með sér að ríkislögreglustjóri hafi misskilið ákvæði í skaðabótalögum um opinbera meingerð. Hann hafi talið að sú réttarvernd sem felst í ákvæðinu gæti átt við um embættið, en skilningur ráðuneytisins sé sá að það eigi einungis við um einstaklinga. Enda hafi ríkislögreglustjóri ítrekað það að hann hafi verið að verið að koma á framfæri leiðréttingum vegna umfjöllunar um embættið. 

Í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis segir að eftir bréfaskipti ráðuneytisins við Harald hafi það verið mat ráðuneytisins að áminna hann ekki. „Var það mat m.a. byggt á því að hann gekkst við misgjörðum sínum og áréttaði það til framtíðar að hann myndi gæta að orðanotkun í málum sem þessum. Í ljósi þess var ákveðið að gefa honum þó skýr skilaboð um afstöðu ráðuneytisins til slíkrar framgöngu og leggja sérstaklega fyrir hann að leiðrétta hana. Það voru því meðalhófssjónarmið sem réðu för við þetta mat,“ segir í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns.