Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkislögreglustjóri hafi fylgt lögum

24.06.2019 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Embætti ríkislögreglustjóra segir að framganga ríkislögreglustjóra í máli lögreglumanns, sem kærður var fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum, hafi verið lögum samkvæmt. 

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Meintu brotin áttu sér stað í sumarbústaðarferð árið 2007 og greindi stjúpdóttir mannsins fyrst frá þeim. Lögreglumaðurinn gegndi áhrifastöðu innan lögreglunnar þegar málið kom upp. RÚV fjallaði ítarlega um málið fyrir ári síðan. 

Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að samkvæmt niðurstöðu nefndar um eftirlit með lögreglu hafi ríkislögreglustjóri getað vikið lögreglumanninum sem kærður var frá störfum á meðan rannsókn stóð yfir. Haraldur Jóhannessen ríkislögreglustjóri gat ekki orðið við beiðni fréttastofu um viðtal vegna þess að hann er í orlofi erlendis. Í svari frá Thelmu Cl. Þórðardóttur, yfirlögfræðingi ríkislögreglustjóra, sem sent var fréttastofu í dag, er bent á að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi ekki talið ástæðu til að senda ríkislögreglustjóra tilmæli um aðgerðir vegna málsins. Né heldur hafi hún talið ástæðu til frekari athafna af hálfu nefndarinnar. 

Það er rökstutt nánar í ákvörðun nefndarinnar. Þar segir að ekki sé hægt að ráða að fullu af útskýringum ríkislögreglustjóra hvers vegna manninum var ekki vikið tímabundið frá störfum - hvort það væri vegna skorts á gögnum, líkt og ríkislögreglustjóri hefur borið fyrir sig, eða hvort ríkislögreglustjóri hafi talið að heimild til þess að víkja manninum frá hafi ekki verið til staðar. Vegna þessa, og vegna þess að skipunarvald sé ekki lengur hjá ríkislögreglustjóra, var ekki talin ástæða til frekari athafna. 

Þá er tekið fram í svari embættisins að maðurinn hafi komið aftur til starfa hjá lögreglunni þar sem mál á hendur honum hafi verið felld niður. Fjölmörg dæmi séu um slíkt og lögreglumanninum hafi því ekki verið veitt lausn frá embættinu að fullu. 

Fram kom í frétt RÚV að samkvæmt niðurstöðu nefndar um eftirlit með störfum lögreglu hafi ríkislögreglustjóra verið heimilt að víkja honum frá störfum á meðan á rannsókn stóð. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV