Ríkið sýknað af 1,3 milljarða bótakröfu Guðjóns

26.03.2020 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenska ríkið hefur verið sýknað af bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálanna. Í dómsorði er tekið fram að Guðjón skuli greiða íslenska ríkinu 1,5 milljónir króna í málskostnað. En allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Þar með talin þóknun til verjanda Guðjóns, að upphæð 1,5 milljónir króna. 

Guðjón er einn þeirra sem var dæmdur í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana, ásamt örðum mönnum. Eftir endurupptöku málsins í Hæstarétti var kveðinn upp sýknudómur. 
Í júní í fyrra stefndi Guðjón Skarphéðinsson ríkinu og krafðist 1,3 milljarða króna í bætur, að frádregnum þeim 145 milljónum sem hann hefur þegar fengið greiddar frá íslenska ríkinu vegna málsins. Krafan um bætur er meðal annars gerð vegna  ólöglegrar  handtöku,  ólöglegs  gæsluvarðhalds og rangra dóma. 

Forsendur dómsins fyrir sýknu eru meðal annars þær að allar hugsanlegar kröfur Guðjóns séu fyrndar sökum þess hversu langt er liðið frá málsatvikum, en Geirfinnur Einarsson hvarf árið 1974. 

Þá segir dómari jafnframt að með framburði sem Guðjón gaf fyrir dómi hafi hann sjálfur valdið þeim aðgerðum sem hann hafi reist kröfur sínar á. Því hafi hann fyrirgert rétti sínum til bóta vegna handtöku, gæsluvarðhalds, ætlaðs rangs dóms, afplánunar dómsins og skilorðsins/reynslulausnarinnar.

Á vef Fréttablaðsins er haft eftir Ragnari Aðalsteinssyni að dómnum verði áfrýjað 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi