Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkið stendur vörð um samgöngur til og frá landinu

23.03.2020 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ríkið hafi skyldu til að stíga inn í atburðarásina ef samgöngum og vöruflutningum til og frá landinu sé ógnað.

Bjarni var í viðtali í Morgunþætti Rásar eitt og Rásar tvö um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins. Hann var spurður um stöðu Icelandair, en viðtalið var tekið áður en tilkynning fyrirtækisins um uppsagnir og niðurskurð birtist. 

Ríkið stígur inn ef samgönguöryggi verður ógnað

„Það sem blasir við í mínum huga er að ef að það verður röskun í alþjóðaflugi til og frá Íslandi og samgöngum og vöruflutningum vegna þess er ógnað þá höfum við skyldu til þess að stíga inn í þá mynd" sagði Bjarni.

„Eina sem ég get sagt er þetta:  Við munum standa vörð um samgöngukerfi til Íslands. Ég er sammála því að Icelandair er eitt mikilvægasta, ef ekki mikilvægasta fyrirtækið sem starfar á Íslandi í dag. Það eru ekki nema rúm 10 ár síðan fyrirtækið var endurfjármagnað.  Þetta er áhættusamur rekstur. Það er gríðarleg samkeppni og ekki við öðru að búast að samkeppnin verði grimm í framhaldinu".

Önnur flugfélög erlndis fá ríkisaðstoð

„Önnur flugfélög sem hafa lent í vanda eru að fá ríkisaðstoð í hverju landinu á eftir öðru. Þannig að þegar samgöngur komast aftur á skrið, fólk fer að ferðast og viðskipti taka við sér þá er alveg við því að búast að samkeppnin verði blóðug" sagði Bjarni Benediktsson í Morgunþætti Rásar 1 og Rásar tvö í morgun.