Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ríkið lánar 4,7 milljarða í Vaðlaheiðargöng

07.04.2017 - 18:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vaðlaheiðargöng eru komin 44 prósent fram úr áætlun og viðbótarfjárþörf verkefnisins nemur 4,7 milljörðum. Þetta kemur fram í minnisblaði sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Ríkisstjórnin samþykkti að lána þessa upphæð en jafnframt að gerð yrði úttekt á framkvæmdinni og hvað fór úrskeiðis.

Ágúst Torfi Hauksson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, segir í samtali við fréttastofu að þessi upphæð eigi að duga og gott betur.

Í febrúar var greint frá því að Vaðlaheiðargöng væru komin 30 prósent fram úr áætlun og að þau myndu kosta 3,2 milljörðum meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Unnið væri að því að fá viðbótarlán frá ríkinu.  Ágúst Torfi segir þennan mismun megi að einhverju leyti skýra að ríkið hafi gert sína eigin úttekt og komist að þessari niðurstöðu - að 4,7 milljarða vantaði til að klára verkið.

Ágúst segir að í ljósi þess hversu lítið sé eftir og skammt sé þangað til sjáist til lands minnki óvissan. „Þegar gegnumslagið kemur er þetta í raun bara hefðbundin vegavinna,“ segir Ágúst. Í minnisblaði ráðuneytisins segir að aðeins séu eftir 200 metrar af þeim 7,2 kílómetrum sem göngin verða. Þar segir reyndar einnig að í upphaflegum áætlunum hafi verið gert ráð fyrir ófyrirséður kostnaður við göngin gæti numið allt að 7 prósent af framkvæmdaáætlun. 

Í minnisblaði ráðuneytisins er saga Vaðlaheiðarganga rakin lauslega - meðal annars að gert hafi verið ráð fyrir að verkinu yrði lokið í árslok 2016 „en núverandi áætlanir gera ráð fyrir að verkinu verði ekki lokið fyrr en í árslok 2018, þannig að í heild hefur verkið tafist um 2 ár.“  Innrennsli á bæði heitu og köldu vatni, hrun, og erfið jarðlög í hluta ganganna hafa valdið umtalsverðum töfum og aukaverkum við framkvæmdina

Þá liggi fyrir að hluthafar Vaðlaheiðarganga  hafi hafnað að leggja félaginu til aukið hlutafé til að standa undir aukakostnaðinum. „Ljóst er að verði framkvæmdinni ekki að fullu lokið kann ríkissjóður sem lánveitandi að skaðast auk þess sem göngin sem nánast eru fullgrafin munu ekki skila þeim samfélagslega ávinningi sem stefnt var að,“ segir í minnisblaðinu. 

Það sé því mat fjármálaráðuneytisins að hagfelldast sé fyrir ríkið að verkefninu verði lokið og það verði því skoðað í framhaldinu hvernig best verði að haga framtíðarfjármögnun þeirra eftir að öll óvissa er frá og reynsla verður kominn á rekstur þeirra. 

Þá kemur fram í minnisblaðinu að ríkisábygðarsjóði hafi verið falið að gera umsögn um viðbótarlánveitinguna. Sjóðurinn telur í þeirri umsögn rétt, úr því sem komið er, að samþykkja viðbótarlánið.