Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ríkið kaupir Hellisfjörð á 40 milljónir

12.08.2019 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: domus.is
Ríkið hefur ákveðið að kaupa jörðina Hellisfjörð á Austfjörðum, stæstan hluta af nær óbyggðum eyðifirði sem ríkið vill vernda. Þýskur frumkvöðull hafði samið um kaup á jörðinni fyrir 40 milljónir en að tillögu umhverfisráðuneytisins nýttir ríkið forkaupsrétt og gengur inn í kaupsamninginn. Jörðin er um 1900 hektarar.

Í Hellisfirði var norsk hvalveiðistöð í byrjun 20. aldar en nú er fjörðurinn í eyði og þar er aðeins sumarhús. Fjölskyldufyrirtæki Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndaframleiðanda og athafnamanns keypti jörðina árið 2000 en síðasta sumar var hún auglýst til sölu. Væntanlegur kaupandi var Þjóðverjinn Sven Jakobi sem rekur stóra auglýsingaskjái á flugvöllum, stórmörkuðum og verslunarmiðstöðvum.

Fram kom hjá Austurfrétt að hann hefði keypt jörðina í gegnum félagið Vatnsstein. Samkvæmt fyrirtækjaskrá væri tilgangur félagsins eldi og ræktun í ferskvatni. Þegar hann kynnti bæjaryfirvöldum í Fjarðabyggð áform sín sagðist hann vilja rækta upp veiði í Hellisfjarðará og jafnvel byggja höfn.

Enginn vegur liggur í fjörðinn og þangað hefur ekki verið leitt rafmagn. Í fiskeldisstefnu Fjarðabyggðar var lagst gegn sjókvíaeldi í Hellisfirði enda eyðifjörður og náttúruparadís hugsuð til ferðamennsku. Fjörðurinn er innan Gerpissvæðis sem er á náttúruminjaskrá og í náttúruverndaráætlun 2009-2013 var lagt til að svæðið yrði skilgreint sem friðland.

Ríkið má grípa inn í jarðakaup ef jarðir eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu óskaði umhverfisráðuneytið eftir því að forkaupsréttur yrði nýttur. Það byggðist á umsögnum frá bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands sem báðar töldu Hellisfjörð einstakan og að hann ætti að vernda. Í erindi umhverfisráðuneytis til fjármálaráðuneytis kom meðal annars fram að fjörðurinn væri óbyggt víðerni þar sem ummerkja mannsins gætti lítið sem ekkert og mikilvægt að náttúran þar fái að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Svæðið væri mjög viðkvæmt fyrir allri röskun. Gróðurfar sé sérstakt og þar vaxi sjaldgæfar plöntutegundir; sumar í útrýmingarhættu. Mikilvægt væri að tryggja vernd óbyggðra svæða sem væru orðin fágæt á heimsvísu.

Fjármálaráðuneytið ákvað í byrjun mars að ríkið myndi nýta forkaupsrétt að Hellisfirði og ganga inn í kaupsamninginn og því fær ríkið jörðina á 40 milljónir króna. Það kann að þykja lítið fyrir 1900 hektara en í svari ráðuneytisins til fréttastofu segir að stærð jarðar þurfi ekki að segja mikið til um verðmæti því hektaraverð sé mjög háð eðli landsins, til dæmis skiptingu í láglendi og hálendi, nýtingarmöguleikum, staðsetningu og því hvort landinu tilheyri hlunnindi.

Fram kemur í eigandastefnu ríkisins vegna jarða að nokkrar aðrar jarðir hafi verið keyptar á síðastliðnum árum vegna náttúruverndarsjónarmiða. Til að mynda Teigarhorn við Djúpavog, Fell við Jökulsárlón í Suðursveit og landsvæði við Geysi. Samkvæmt 37. grein laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, hafi ríkissjóður forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Í eigandastefnu ríkisins kemur fram að sjónarmið almannahagsmuna þurfi að vega og meta þegar til greina komi að virkja þetta ákvæði. Jafnframt geti legið verulegir almannahagsmunir í því að ríkið eigi frumkvæði að kaupum á landi vegna náttúruverndar.

Uppfært 12.08.2019 16:08: Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að kaupin væru frágengin en rétt er að ríkið hefur ákveðið að nýta forkaupsrétt.