Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ríkið hyggst greiða upp tap Icelandair að hluta til

29.03.2020 - 19:00
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Ríkið hyggst greiða upp tap Icelandair, sem hlýst af því að halda flugi gangandi til Evrópu og Bandaríkjanna, tvo daga í viku. Á móti viðheldur flugfélagið lágmarkssamgöngum til og frá landinu.

Á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag var ákveðið að gera samkomulag við Icelandair um að flugfélagið haldi áfram að fljúga til Boston, og Lundúna eða Stokkhólms, til að tryggja samgöngur til og frá landinu. Samkomulagið, sem var undirritað á föstudagskvöld, hefur þegar tekið gildi.

„Þetta eru að lágmarki sex ferðir á hvern stað næstu þrjár vikurnar á meðan þessar lokanir í kringum okkur hafa verið tilgreindar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. Hann segir að hugsanlega verði samkomulagið þó framlengt.

Í samkomulaginu er kveðið á um að ríkið greiði allt að hundrað milljónir til flugfélagsins næstu þrjár vikurnar. 

„Við höfum metið þetta á bilinu sjötíu milljónir plús og að hámarki hundrað milljónir. Þetta er í tiltekinn tíma á meðan á þessu varir og svo þarf að taka stöðuna aftur ef hún heldur áfram,“ segir Sigurður.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir tap þó blasa við flugfélaginu næstu vikurnar. „Við teljum bara mikilvægt að félagið haldi þessum tengingum gangandi. Það er mikilvægt að fá ríkið að málum þó það sé bara að hluta til,“ segir Bogi.

„Við verðum að sjá hvernig eftirspurnin er, hversu margir farþegar nýta sér þetta og hversu miklar tekjur eru af hverju flugi. Þetta er svo gert upp eftirá,“ segir hann.

Ein vél frá Icelandair fór frá Keflavíkurflugvelli til Lundúna í morgun. Öðru flugi á vegum félagsins hefur verið aflýst, þrjátíu og einni ferð. Á morgun er staðan svipuð, rúmlega þrjátíu ferðum aflýst. Á áætlun er þá morgunflug Icelandair til Lundúna og flug til Boston seinni partinn. Einungis ein farþegavél lendir á Keflavíkurflugvelli á morgun. Athygli vekur að enn er hægt að bóka ýmsar flugferðir en þeim er jafnharðan aflýst.

„Við höfum verið að stýra þessu þannig að við erum að breyta flugum og taka út flug með 48 tíma fyrirvara en núna í næstu viku ætlum við að breyta þessu og horfa sjö daga fram í tímann,“ segir Bogi.