
Ríkið borgar að minnsta helming í Borgarlínu
Ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa undirritað viljayfirlýsingar, skipað starfshópa og verið í stöðugum viðræðum um úrbætur í samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Á morgun verður haldinn blaðamannafundur þar sem til stendur, samkvæmt heimildum fréttastofu, að kynna fjármögnunarleiðir og nákvæmari útfærslu á framkvæmdunum.
100 milljarðar til að laga umferðina
Til stendur að verja að minnsta kosti 100 milljörðum króna á næstu 15 árum í úrbætur, en þar vegur Borgarlínan þungt, sem öll sveitarfélögin hafa sammælst um að taka í notkun. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ætlar ríkið að greiða að minnsta kosti helming af kostnaði við uppbyggingu Borgarlínunnar, miðað við að heildarkostnaður kerfisins alls verði um 70 milljarðar.
Framkvæmdir á flestum sviðum
Framkvæmdir innan borgarmarkanna verða umfangsmiklar og skiptast niður á fjögurra ára tímabil í senn, frá árinu í ár til 2033. Það á að byggja upp almenningssamgöngur, leggja fleiri göngu- og hjólastíga, laga stofnbrautir, bæta umferðarstýringu og fleira. Engar frekari upplýsingar um útfærsluna fengust innan úr stjórnkerfinu í dag, en framkvæmdir við Borgarlínuna eiga að hefjast innan tíðar. Búist er við að fyrsti áfanginn, uppbygging nauðsynlegra innviða, kosti rúma 40 milljarða króna.