Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríflega 6.500 nýnemar í háskólum landsins

22.08.2019 - 10:46
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Skólahald er að hefjast í flestum háskólum landsins. Á sjöunda þúsund nemenda eru að hefja háskólaskólanám.

Flestir eru að hefja grunnnám í Háskóla Íslands, rúmlega 3.400 samkvæmt bráðabirgðatölum. Líklegt þykir að um 100 bætist við á næstu vikum. Í fyrrahaust voru nýnemar í HÍ um 3.300. 

Í Háskólanum í Reykjavík eru nýnemar haustsins ríflega 1.700 að meðtöldum 140 skiptinemum og nemendum í háskólagrunni að sögn Eiríks Sigurðssonar, forstöðumanns markaðs- og samskiptasviðs háskólans. Það er um níu prósenta fjölgun frá síðasta ári. Karlar eru 56% prósent og konur 44% nýnema í HR. 

Háskólinn á Akureyri tekur á móti tæplega 1.100 nýnemum. Þar eru konur í miklum meirihluta. Um 800 konur eru skráðar til náms en rúmlega 280 karlar, samkvæmt upplýsingum frá Katrínu Árnadóttur, forstöðumanni markaðs- og kynningarsviðs HA. 

Teitur Erlingsson, samskiptastjóri í Háskólanum á Bifröst, segir að samkvæmt bráðabirgðatölum séu um 226 nýnemar skráðir til náms, 136 í grunnnámi og 90 í meistaranámi. 

Samkvæmt upplýsingum frá Rósu Björk Jónsdóttur, markaðs- og kynningarstjóra Landbúnaðarháskóla Íslands, hefja um 130 nýnemar nám þar, 75 í grunnnámi, 35 í starfsmenntunarnámi og 20 á efri stigum. Rósa Björk segir að það halli aðeins á karlana og um tveir þriðju hlutar nemenda séu konur. 

Ekki náðist í talsmann Háskólans á Hólum við gerð fréttarinnar. Aðrir háskólar gefa upp bráðabirgðatölur. Nýnemum getur fjölgað eða fækkað því enn er mikil hreyfing á skráningu í skólana.