Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reynsla af rafmagnsvögnum framar vonum

31.07.2018 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rafmagnsvagnar sem verið hafa í notkun hjá Strætó hafa reynst framar væntingum segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir að þeim muni fjölga á næstunni.

 

Strætó bs. keypti 14 rafmagnsstrætisvagna frá Kína. Fjórir fyrstu vagnarnir voru teknir í notkun í byrjun apríl. 

„Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel, framar væntingum og ekkert komið upp á sem komið hefur okkur á óvart, þannig að við erum bara mjög ánægðir með reynsluna af þessum vögnum,“  segir Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó.

Hann segir aksturinn orðinn það mikinn að hann gefi nokkuð öruggar vísbendingar.

„Já, við erum búnir að keyra þá svona tíu til tólf þúsund kílómetra á þessum fjórum mánuðum þannig að ég held að við séum alveg komnir með það góða reynslu af þessu að nú förum við að nota þá meir og meir.“

Jóhannes segir að rafmagnsvögnunum verði fjölgað í akstri á næstunni.

„Það komu fimm vagnar til landsins á föstudaginn og þeir eru núna í undirbúningi og standsetningu og við eigum von á að fá þá til okkar frá innflytjanda í næstu viku og sjáum þá á götunni einhvern tímann í byrjun ágúst. Svo kemur restin vonandi í lok þessa árs og þá er þetta orðið ansi gott hlutfall af strætóflotanum.“

Sem kunnugt er tafðist afhending fyrstu vagnanna þar sem þurfti að styrkja þá sérstaklega fyrir akstur hér. 

„Það hefur ekkert komið upp á og þeir gerðu mjög viðamiklar prófanir á vögnunum úti í Kína. Þetta kom í ljós á síðustu metrum prófana þegar búið var að keyra þá nokkur hundruð þúsund kílómetra, þannig að við höfum fulla trú á því að þeir hafi leyst þetta vandamál og við eigum ekki eftir að sjá nein vandamál í framtíðinni með þessa vagna.“

Jóhannes segir að þegar sé ein hraðhleðslustöð komin til landsins sem til standi að setja upp á einhverri leið og von sé á þremur öðrum. Á næstunni verði skoðað hvar best sé að setja þær.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV