Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reynisfjara: „Þarna þarf bara að vera gæsla“

12.02.2020 - 16:04
Mynd með færslu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.  Mynd:
Leiðsögumaður sem bjargaði tveimur börnum í Reynisfjöru á laugardag segist hafa óttast um líf sitt. Hann hefur áður orðið vitni að hættulegum atvikum í fjörunni en engu sem líkist því sem hann lenti í um helgina. Vinna við áhættumat fyrir Reynisfjöru hefur tafist. Áhættumatið er forsenda þess að hægt verði að loka fjörunni þegar aðstæður teljast mjög hættulegar. Verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi útilokar ekki að komið verði upp gæslu í fjörunni.

 

Leiðsögumaðurinn starfar hjá litlu ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á einkaferðir. Hann vill ekki koma fram undir nafni, segist vilja vekja athygli á stöðunni í Reynisfjöru ekki á eigin björgunarafrekum. Á sex ára ferli hefur hann fjórum sinnum aðstoðað fólk sem hefur farið sér að voða í fjörunni, en tilvikið um helgina var það langalvarlegasta sem hann hefur lent í. „Hin þrjú skiptin var þetta þannig að fólk var að hlaupa í flæðarmálinu, aldan kom og greip það og það átti erfitt með að standa hana, ég til og bleytti á mér lappirnar við að kippa í fólk en þetta var allt öðruvísi og miklu alvarlegra atvik.“

Maðurinn var á svæðinu með lítinn hóp þýskra kvenna. Á bílaplaninu stóðu sjö stórar rútur auk fjöldi minni rúta og í fjörunni sjálfri áæltar hann að hafi verið tvö til þrjú hundruð manns.

Sjórinn freyddi, sjávarstaðan var há, það var fullt tungl og öldurnar gengu sumar langt upp á land. Hann hafði útskýrt hætturnar rækilega fyrir hópnum sínum, að það gætu komið stærri og hættulegri öldur inn á milli og því best að halda sig í góðri fjarlægð frá flæðarmálinu. „VIð komum þarna niður eftir og sjáum strax að fólk er ekki að skynja hættuna. Konurnar sem ég er með hafa strax orð á þessu, hvar er vaktin? Er engin gæsla þarna? Þetta skilti sem við sáum það skildi það enginn. Þær sjá strax fólk sem er að hlaupa í flæðarmálinu og finnst skemmtilegt að láta ölduna elta sig. Við erum að ræða þessa hluti, stöndum þarna alveg efst í fjörunni, beint fyrir neðan göngustíginn þar sem maður kemur niður í fjöruna frá kaffihúsinu. Þar sem við stöndum og erum að ræða þetta kemur inn í sjónlínuna hjá mér fjölskylda, alveg neðst níðri við flæðarmálið. Hjón með tvö börn, kannski fjögurra til sjö ára. Ég fæ strax hnút í magann því foreldrarnir eru ofar í fjörunni og börnin eru að leika sér niðri í flæðarmálinu. Ég geri mig líklegan til að hlaupa niðureftir og benda þeim á hætturnar en fæ ekki meiri tíma til að hugsa því þá er komin alda þarna upp sem skellur aftan á börnunum þar sem þau snúa baki í sjóinn. Aldan skellir þeim flötum beint á magann og útsogið byrjar að soga þau út, þar sem þau liggja með á maganum með andlitið í sjónum.“ 

Foreldrarnir stóðu að hans sögn hikandi í flæðarmálinu, leiðsögumaðurinn veltir því fyrir sér hvort þeir hafi verið syndir. Þegar hann kom að höfðu börnin flotið hvort frá öðru. „Þegar ég er komin út í sjóinn þarf ég að taka ákvörðun um það hvoru barninu ég fer á eftir fyrst. Ég ákvað að fara á eftir yngra barninu, stelpunni sem er komínn lengra út. Sjórinn dýpkar þarna mjög fljótt þar sem aldan grefur sandinn sem er mjúkur og lítil festa í honum þannig að áður en ég vissi af var ég kominn í sjó upp að mitti og öldurnar að skella á okkur, ég átti í mesta basli við að standa ölduna sjálfur.“ 

Hann náði taki á úlpu stelpunnar og síðar tókst honum að ná drengnum, hélt á þeim báðum í land eins og ferðatöskum. Þegar börnin voru komin upp í fjöruna hóstuðu þau upp sjó. Að sögn leiðsögumannsins voru þau stjörf, í hálfgerðu losti. „Þetta var náttúrulega mikið drama, ég var þarna að ná andanum og átta mig á því að ég væri kominn upp úr sjónum því á tímabili var ég sannfærður um að ég væri að fara líka.“

Óttaðistu um eigið líf? 

„Já, ég gerði það. Ég er fjölskyldumaður og var farinn að hugsa að ég væri að skilja fjölskylduna mína eftir föðurlausa en það er kannski ekki aðalatriðið.“ 

Nokkrum augnablikum eftir hrakningarnar heyrði leiðsögumaðurinn öskur. Þá var hópur af ungu fólki uppi í stuðlaberginu og öldurnar skullu á því. „Ég þarf strax að snúa mér að þeim og skipa þeim að koma niður úr stuðlunum, þeim fannst þetta rosa fyndið og voru hlæjandi á meðan aldan skall á þeim, þau voru rennandi blaut. Það tók mig svona mínútu að lóðsa hópinn niður og koma honum í var og þegar ég sný mér við er fjölskyldan bara horfin.“ 

Hann grennslaðist fyrir um þau á kaffihúsinu en fann þau ekki þar. 

Nokkur banaslys hafa orðið í Reynisfjöru. Fyrir fjórum árum hreif alda kínverskan ferðamann og bar hann 550 metra frá landi. Aðeins nokkrum klukkustundum seinna var fjöldi erlendra ferðamanna staddur í flæðamálinu, grunlaus um hvað hafði gerst.Skiltin í fjörunni voru endurnýjuð árið 2016 skömmu eftir að kínverski ferðamaðurinn lést. Leiðsögumaðurinn segir þau litlu skila, skýringarmyndin af ólagsöldunni geri ferðamönnum ekki grein fyrir hættunni. Þeir sem komi í fjöruna í fylgd leiðsögumanna fái flestir greinargóðar upplýsingar en þeir sem eru á eigin vegum séu margir grunlausir. „Þetta skilti er bara algerlega gagnslaust leyfi ég mér að segja. Það er þarna til hliðar við göngustíginn. Það er ekkert sem skikkar fólk til að stoppa þarna og skoða skiltið og það er auðvelt að ganga fram hjá því.“ 

Leiðsögumaðurinn segir mikil tækifæri falin í því að hafa Reynisfjöru opna. Þangað komi nær allir ferðamenn sem vilji sjá svartar fjörur. Ef fjörunni yrði lokað myndu þeir dreifast yfir stærra svæði þar sem væri erfiðara að hafa eftirlit með þeim. Í hans huga er lausnin einföld, það þurfi að koma upp gæslu á svæðinu, hafa landverði í fjörunni sem vari fólk við hættunni. Sá háttur sé til dæmis hafður á við Giant Causeway, vinsælan ferðamannastað við strönd Norður-Írlands. „Ég ætla ekki að fabúlera hver eigi að fjármagna það en það þurfa að vera verðir þarna, það er ekki hægt að setja keðjur sem sýna hversu langt fólk má fara því þær skolast bara burt í öldurótinu, þarna þarf bara að vera gæsla.“ Koma þurfi í veg fyrir óþarfa slys ekki bara í Reynisfjöru. Huga þurfi að orðspori Íslands sem ferðaþjónustulands, sérstaklega nú þegar blikur séu á lofti í efnahagslífinu. Þá spyr hann sig hvort það hreyfi minna við Íslendingum þegar ferðamenn láti lífið í slysum en þegar Íslendingar deyja. „Ef það gerast svona fáránleg slys eins og eru oft að gerast í ferðamennskunni, þið hafið kannskí séð myndbönd þar sem eru tuttugu manns sem lenda í öldunni og eiga fótum fjör að launa. Er fólkið tilbúið að takast á við það að einn daginn komi frétt um að tuttugu manns hafi drukknað í Reynisfjöru, að það verði heitasta fréttin í heiminum þann daginn?“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV