Reyna að ná rútunni upp

12.01.2020 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Sigurðsson - RÚV
Í dag verður reynt að ná rútu upp á veginn sem valt nærri bænum Öxl suður af Blönduósi á föstudag. Um 50 manns voru í rútunni, nemar úr Háskóla Íslands á leið norður í land í skemmtiferð. Lögreglan á Norðurlandi vestra bendir vegfarendum á að tafir geti orðið á umferð um þjóðveginn meðan á þessu stendur.

Tvær rútur með um 90 háskólanema voru í samfloti þegar önnur þeirra lenti utanvegar í mikilli hálku og vindi. Rútan valt og endaði á þakinu. Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hún lenti við Landspítalann í Fossvogi rétt fyrir klukkan átta á föstudagskvöld. Farið var með aðra á Blönduós þar sem hugsanleg meiðsl voru athuguð og fólkinu safnað saman í fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum á Blönduósi. Þar dvaldi fólkið eina nótt.