
Reyna að fylla í skarð Super Break
Ef Super Break hefði flogið milli Bretlands og Akureyrar í vetur hefði það verið þriðja veturinn í röð. Talið er að gjaldþrot fyrirtækisins hafi þýtt allt að 300 milljóna króna tap fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Nú er orðið ljóst að ekkert verður flogið á þessari leið í vetur.
Leita samstarfs á breskum markaði
„Hinsvegar erum við að vinna að því með okkar samstarfsaðila að finna aðila á breskum markaði til þess að gera eitthvað svipað og Super Break var að gera hér.“ Segir Hjalti Páll Þórarinsson, starfsmaður Markaðsstofu Norðurlands. „Það kæmi þá mögulega til framkvæmda næst vetur, semsagt veturinn 2020-2021."
Markaðssetning Super Break í Bretlandi hjálpi
Og sú markaðssetning Íslands sem Super Break stóð fyrir í Bretlandi gagnist nú í viðræðum við þarlend fyrirtæki. „Og er örugglega auðveldara fyrir fyrirtæki sem fara af stað núna, að koma inn og gera eitthvað svipað. Af því að það er búið að vinna þar ákveðna grunnvinnu," segir Hjalti.
Afar mikilvægt að koma þessu flugi á aftur
Hollenskt fyrirtæki mun halda uppi leiguflugi til Akureyrar eftir áramót en Hjalti segir afar mikilvægt að koma aftur á flugi frá Bretlandi. Og flug frá hverjum nýjum áfangastað hafi mikið að segja, sérstaklega yfir veturinn. „Það eru þarna fyrirtæki sem hafa áhuga, en það er enn of snemmt að segja til um árangur í því. En við bindum vonir við að þarna náum við aftur tengingu við breska markaðinn."