Reyna að fá fólk til að koma ekki til Íslands

18.12.2017 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Icelandair reynir nú að fá farþega sem ætla að millilenda hér á landi til að koma ekki til landsins heldur fljúga með öðrum flugfélögum. Samningarfundi í kjaradeilu flugvirkja og Icelandair var slitið um fjögurleytið í nótt, án þess að nokkur niðurstaða fengist. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Nú í morgun voru starfsmenn ISAVIA að aðstoða strandaglópa í Leifsstöð sem biðu í röðum.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir að hópur fólks hafi safnast saman við söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. „Þar er starfsfólk ISAVIA að afhenda fólki vatn og eitthvað slíkt bara til þess að létta biðina. Þar er fólk að leita að úrlausn sinna mála á skrifstofu Icelandair. Þetta myndi ég halda að væru erlendir ferðamenn, mögulega einhverjir sem hafa verið að koma með vélum og hafa átt tengiflug eitthvert annað, sem eru að leitast eftir því að komast áfram eða fá gistingu hér. Það er það sem var í gangi í gær þegar við höfðum þessar löngu raðir,“ segir Guðjón Helgason.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að átta vélar frá Bandaríkjunum hafi lent í Keflavík í morgun. „Það hefðu átt að fara 15 flug til Evrópu en það eru að fara átta vélar, sjö flugferðum hefur verið aflýst. Flugflotinn okkar telur 30 vélar. Þegar við höfum ekki flugvirkja að störfum, ef eitthvað kemur upp á, þá er þeim flugvélum lagt til hliðar og þær ekki notaðar. Þannig að það tínist fljótt úr, það er oft eitthvað smávægilegt sem kemur upp á. Eftir hvert flug skilar áhöfnin inn stuttri skýrslu sem farið er yfir. Þannig að þetta gerist mjög hratt. Við erum ekki nema að litlu leyti að eiga við Íslendinga heldur fólk af öllu þjóðerni með mjög ólíkar þarfir og kröfur. Það sem við reynum að gera er að fá farþega sem eru að fara með okkur milli meginlandanna, milli Evrópu og Norður-Ameríku, til þess að taka önnur flugfélög og hreinlega að fá þá til þess að koma ekki til Íslands. Við borgum fyrir þá miða með öðrum flugfélögum til þess að létta á þessari umferð inn og út úr landinu, þ.e.a.s. Íslendingar sem eru á leið út og aðrir að komast heim,“ segir Guðjón Arngrímsson. 

Guðjón segir að flugvirkjum standi til boða launahækkanir í takt við það sem gengur og gerist. „Og í rauninni ágætar hækkanir en þeirra kröfur eru miklu hærri og þeir eru óhræddir við að beita þessu vopni,“ segir Guðjón. „Það verður auðvitað eitthvað að gera, þetta gengur ekki til lengdar. Icelandair er stærsta fyrirtæki landsins og viðskiptavinirnir eru margir. Það er eiginlega erfitt að sjá það fyrir sér að þetta fyrirtæki hreinlega bara loki eins og stefnir í,“ segir Guðjón. Hann bendir á að komi hafi fram hjá stjórnvöldum að lagasetning á verkfall flugvirkja komi ekki til greina. „Það er auðvitað eina sem hægt er að gera er að ná samningum,“ segir Guðjón Arngrímsson.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi