Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Reykjavík Media hafnar fullyrðingu Sigmundar

04.06.2016 - 16:37
Fréttamenn og ritstjórar Reykjavík Media, Kastljóss RÚV og Uppdrag Granskning hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna orða sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lét falla á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins fyrr í dag. Þar kemur fram að honum hafi boðist fjölmörg tækifæri til að skýra mál sitt nánar í viðtali.

Sigmundur sagði fyrr í dag að atburðarásin sem sýnd var í Kastljóssþættinum hafi verið óþokkabragð sem hafi heppnast. Viðtalið hafi verið fyrir fram skrifað handrit sem snerist um að koma höggi á Framsóknarflokkinn. 

Sigmundur sagði jafnframt að hans helstu mistök hafi verið afla gagna fyrir fréttamennina. „Við fórum í það næstu tvær vikurnar að afla gagnanna fyrir þess menn. Alltaf var reynt að svara þeim spurningum sem þeir vildu fá. Svo kom á daginn að þetta snerist aldrei um að afla upplýsinga. Þetta snerist um að halda mér uppteknum í tvær til þrjár vikur,“ sagði Sigmundur fyrr í dag.

Í yfirlýsingu eru tölvupóstar til Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar, birtir og má sjá hér fyrir neðan.

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV