Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reykjalundur verður varasjúkrahús

26.03.2020 - 22:28
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Reykjalundur verður varasjúkrahús fyrir Landspítalann frá og með morgundeginum. Þar verða alls 26 legurými. Þetta er ein af þeim lausnum sem hafa verið í skoðun til að undirbúa heilbrigðiskerfið fyrir ýmsar sviðsmyndir kórónuveirufaraldursins.

„Hugsunin er að Reykjalundur geti verið bakhjarl Landspítala í COVID-19 faraldrinum og að þau geti þá losað pláss hjá sér eftir því sem að þarf til þess að gera sjúkrahúsið í Fossvogi að farsóttarspítala eins og ég held að sé þeirra markmið að gera. Þetta eru þá einstaklingar sem hafa komið brátt en þurfa ekki lengur þá sérhæfðu þjónustu sem þar er veitt,“ segir Anna Stefánsdóttir, starfandi forstjóri Reykjalundar.

Þetta er ein af þeim lausnum sem hefur verið í skoðun hjá Landlækni og Landspítala til að bregðast við aukinni þörf á sjúkraplássum vegna faraldursins en verið er að undirbúa aðgerðir miðað við ýmsar sviðsmyndir. 

Mynd með færslu
Anna Stefánsdóttir, starfandi forstjóri Reykjalundar. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Á Reykjalundi eru núna fjórtán legurými sem verða rýmd eftir því sem sjúklingar útskrifast og það klárast væntanlega um helgina, síðan verður göngudeild breytt í legurými fyrir tólf manns. „Við verðum tilbúin á morgun og erum að ganga frá samkomulagi við Landspítala um hvert verklagið verður á innlögnum á þessar tvær legudeildir.“

Nánari upplýsingar verða gefnar um það á morgun hvaða sjúklingahópi Reykjalundur tekur við, verði þess þörf. Ekki þarf að fara í neinar framkvæmdir á húsnæðinu og hægt er að taka við fyrstu sjúklingunum strax á morgun. Sama starfsfólk verður á Reykjalundi og hefur það tekið jákvætt í beiðni um að vinna á vöktum í stað dagvinnu.

„Hér er víðtæk þekking á ýmsum sérgreinum lækninga og mjög öflugt starf í endurhæfingu, þannig að við erum að horfa til þess að þetta eru einstaklingar sem þurfa endurhæfingu líka,“ segir Anna. 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir