Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Réttindalaus skipstjóri með of marga farþega um borð

21.02.2020 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landhelgisgæslan vísaði farþegabátnum Ameliu Rose til hafnar í gærkvöld fyrir að vera með of marga farþega um borð og fyrir að sinna ekki tilkynningarskyldu. Skipstjórinn reyndist einnig vera án réttinda. Í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirpsurn fréttastofu kemur fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem gæslan hefur afskipti af sama bát vegna sambærilegra mála og að það verði kært til lögreglu.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar varð vör við að farþegabátur væri á sjó nærri Reykjavík með of marga farþega um borð og án þess að tilkynningarskyldu hefði verið sinnt eins og lög kveða á um. Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á varðbátnum Óðni til eftirlits. 

Landhelgisgæslan gefur ekki upp nafn bátsins en fréttastofa hefur fengið staðfest að þetta hafi verið farþegabáturinn Amelia Rose. Ekki náðist í forsvarsmann Seatrips Reykjavík sem gera bátinn út.

Málið verður kært til lögreglu

Við talningu um borð í hvalaskoðunarbátnum kom í ljós að farþegarnir voru 53 og svo þriggja manna áhöfn en báturinn hafði leyfi fyrir fimmtíu farþegum. Bátnum hafi því verið tafarlaust vísað til hafnar og haft samband við lögreglu sem hafi tekið skýrslu af áhöfninni þegar báturinn kom í höfn.

Í svarinu kemur fram að Landhelgisgæslan líti málið alvarlegum augum. Farþegabáturinn sinnti ekki tilkynningarskyldu,  lögskráningu áhafnar var ábótavant  auk þess sem of margir farþegar voru um borð.

Mikilvægt sé að fjöldi fólks um borð liggi fyrir hjá Landhelgisgæslunni ef slys verða auk þess sem leyfður farþegafjöldi taki meðal annars mið af öryggisbúnaði um borð.

Í svarinu segir að ekki þurfi að hafa mörg orð um hve alvarlegt ástand hefði getað skapast ef báturinn hefði lent í hafsnauð, sérstaklega í ljósi árstíma og allra veðra von.

Þá sé þetta ekki í fyrsta sinn sem Landhelgisgæslan hefur afskipti af þessum báti vegna sambærilegra mála. Málið verður kært til lögreglu. 
 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV