
Rétti tíminn til að byggja upp innviði
Seðlabankinn lækkaði á miðvikudaginn stýrivexti um 0,25 prósentur með vísan í versnandi horfur í efnahagsmálum. Spáir bankinn einungis 0,8 prósenta hagvexti í ár.
Ríkið á ekki að beita aðhaldi
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir hætt við að tekjur ríkisins verði minni á þessu ári vegna þessa en við þessar aðstæður eigi ríkið ekki að reka aðhaldssama ríkisfjármálastefnu. Ísland sé í þeirri einstöku stöðu að geta fjármagnað innviðafjárfestingu með því að færa til fjármuni á efnahagsreikningi.
„Nú er mjög góður tími til þess að bæta í fjárfestingar hins opinbera, bæði vegna þess svigrúms sem er til staðar þannig að við getum aukið umsvifin án þess að valda spennu í hagkerfinu en líka einfaldlega vegna þess að það er mikilvægt fyrir framtíðina að við séum með sterka innviði,“ segir Bjarni.
Tugir milljarða fyrir fjórðungshlut
Þrátt fyrir hagfelldar aðstæður á markaði, sögulega lága vexti og litla skuldsetningu ríkissjóðs, vill Bjarni ekki fjármagna opinberar framkvæmdir með lánum heldur með sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Innviðafjárfestingar séu þó ekki háðar sölunni á bankanum. „En við eigum að mínu áliti að taka ákvörðun um að við ætlum að selja og þá getum við farið að horfa til þess hvernig við getum umbreytt þeim eignum í innviðafjárfestingar. Við erum að tala um tugi milljarða jafnvel þótt við seldum einn fjórða bankans á komandi árum.“
Sala Landsbankans ekki á dagskrá
Í fjárlögum er heimild til að selja allt að 30 prósenta hlut í Landsbankanum. Bjarni segir ekki til skoðunar að selja hann. Bæði sé sé óheppilegt að selja tvo banka á sama tíma og þá standi vilji til þess að tryggja ráðandi eign í Landsbankanum til lengri tíma.